Talnafegrun borgarstjóra

20. 02, 2020

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, mætti enn á ný í sjónvarpsviðtal í gær, 19. febrúar, og fór með villandi ummæli um þau tilboð sem Reykjavíkurborg hefur gert Eflingarfélögum. Reykjavíkurborg hefur ekki boðið Eflingarfélögum sérstaka leiðréttingu lægstu launa umfram taxtahækkanir að fyrirmynd Lífskjarasamningsins svo neinu nemi.

Þær upphæðir sem borgarstjóri fór með í viðtalinu í gær, með vísun í kjör ófaglærðs leikskólastarfsmanns, byggja á því að telja ekki núverandi sérgreiðslur í byrjunarupphæð en telja þær með í lokaupphæð. Framsetning borgarstjórans er í anda þeirra vinnubragða sem samninganefnd Reykjavíkurborgar hefur viðhaft, þar sem þegar umsamin réttindi eru sett í búning kjaraviðbóta. Virðist þetta gert í þeim tilgangi að fegra mögur tilboð borgarinnar.

Staðreyndin er sú að samninganefnd Eflingar myndi samþykkja, og hefur ítrekað boðið, að grunnlaun hækki sem samsvarar lífskjarasamningnum, að viðbættri leiðréttingu á bilinu 17-46 þúsund krónur. Sú leiðrétting þyrfti ekki að vera í formi grunnlaunahækkunar heldur gæti verið sérstakt álag sem ekki kæmi inn í grunn til útreiknings á yfirvinnu og vaktavinnu.

Samninganefnd Eflingar hefur nú lagt fram þrjú tilboð byggð á tveimur ólíkum nálgunum til að ná fram leiðréttingu. Samninganefndin hefur lýst sig reiðubúna til viðræðu um upphæðir og forsendur slíkra viðbótarhækkana í tilviki ólíkra starfa og vinnustaða. Reykjavíkurborg hefur hafnað þessum nálgunum án viðræðu um hugsanlegar útfærslur og leiðir sem þær kynnu að bjóða upp á.

Fundur trúnaðarmanna Eflingar í morgun samþykkti eftirfarandi ályktun:

„Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson: þér hefur nú verið boðið að ræða kröfur okkar á fundum með félagsmönnum Eflingar ítrekað. Þú hefur ætíð hafnað þeim boðum. Þess í stað hefur þú aðeins látið sjá þig þegar þú færð að sitja einn í sjónvarpsviðtali, þar sem þú hefur talað niður okkar kjara- og réttlætisbaráttu. Þú kennir þig við stjórnmál samræðunnar. Við hörmum og fordæmum að þú viljir ekki eiga samtal við okkur, þitt eigið starfsfólk.“