Samninganefnd Eflingar býður til viðræðna á forsendum yfirlýsinga borgarinnar

Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að nefndin telur yfirlýsingar borgarinnar og Dags B. Eggertssonar í fjölmiðlum fyrir helgi gefa til kynna að borgin sé tilbúin að koma betur til móts við Eflingarfélaga en kynnt var á undangengnum samningafundi. Nefndin telur að með yfirlýsingum sínum hafi Reykjavíkurborg þannig hugsanlega skapað meiri grundvöll til áframhalds viðræðna en ætlað var og kallar eftir staðfestingu borgarinnar á því.Fulltrúar Eflingar hafa áður bent á ósamræmi milli þess tilboðs sem borgin kynnti hjá ríkissáttasemjara þann 19. febrúar og þess hvernig tilboðinu var lýst í fjölmiðlum á sólarhringunum þar á eftir. Í ljósi þess að engir fyrirvarar eða leiðréttingar hafa komið fram frá borginni síðan þá lítur samninganefnd Eflingar svo á að sú útgáfa tilboðs sem kynnt var í fjölmiðlum sé raunverulegt samningsútspil fremur en tilraun til að fegra það sem kynnt var á samningafundi.Meginatriði málsins er til hve margra starfsheita og starfsmanna á leikskólum borgarinnar tilboð borgarinnar nái og hvort það sé skilyrt af því að notast við handstýrða endurskilgreiningu starfsmats á einstökum störfum eða ekki.Yfirlýsingar borgarinnar frá því fyrir helgi er vart hægt að skilja öðruvísi en svo að tilboð borgarinnar nái til allra almennra ófaglærðra starfsmanna Eflingar á leikskólum og að það sé óskilyrt af handstýrðri starfsmatsbreytingu, enda var tilboðið kynnt með tilteknum krónutölum og með vísun í „starfsfólk Eflingar á leikskólum“ án fyrirvara.Í yfirlýsingunni fjallar samninganefndin ítarlega um þann skilning sem hún leggur í yfirlýsingar borgarinnar og óskar eftir viðræðum á þeim grunni, sé borgin sammála þeim skilningi.„Ég get ekki neitað því að við höfum klórað okkur talsvert í kollinum yfir framsetningu borgarinnar í fjölmiðlum á tilboði hennar í kjölfar samningafundarins síðasta miðvikudag. Landsmenn sem fylgdust með fjölmiðlum hafa væntanlega skilið þetta sem tilboð um minnst 110 þúsund skilyrðislausa hækkun grunnlauna Eflingarfélaga sem eru í almennum ófaglærðum störfum á leikskólum. Þetta er ekki í samræmi við það sem var kynnt fyrir okkur í herberginu,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.„En hvað sem því líður þá kjósum við að trúa því að hér sé ekki um að ræða markaðsmennsku eða fegrunaraðgerðir, heldur nýtt og endurbætt útspil af hálfu borgarinnar sem við erum tilbúin að líta jákvæðum augum. Ef það er réttur skilningur hjá okkur þá teljum við það mikilvægt skref í rétta átt. Við bjóðum borginni að staðfesta sameiginlegan skilning á þessu og hefja við okkur viðræður á þeim grunni, þar sem jafnframt verði viðurkennt að slíkar hækkanir þurfi einnig að ná til sögulega vanmetinna kvennastarfa utan leikskólanna, eins og við höfum alltaf krafist,“ sagði Sólveig Anna.Yfirlýsingin hefur verið send til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, Hörpu Ólafsdóttur formanns samninganefndar Reykjavíkurborgar og til embættis ríkissáttasemjara.Hér má sjá yfirlýsingu samninganefndar Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg