Samninganefnd Eflingar lýsir vonbrigðum og þungum áhyggjum vegna árangurslauss samningafundar með samninganefnd Reykjavíkurborgar hjá ríkissáttasemjara í dag.Samninganefndin gagnrýnir ringulreið, seinagang og ósamkvæmni í vinnubrögðum borgarinnar, sem eru í engu samræmi við alvarleikastig kjaradeilunnar. Að mati samninganefndarinnar skynjar Reykjavíkurborg ekki hve mikið er í húfi að vinna hratt og örugglega að lausn deilunnar.Á fundinum fékkst ekkert svar við því hvert væri raunverulegt inntak tilboðs Reykjavíkurborgar frá því fyrir helgi, en mikið ósamræmi var milli þess sem kynnt var á samningafundi og þess sem borgin lýsti í fjölmiðlum. Samninganefnd Eflingar lét frá sér yfirlýsingu varðandi þetta síðasta mánudag. Ekkert efnislegt viðbragð var lagt fram við yfirlýsingu samninganefndarinnar á fundinum í dag. Ekkert var lagt fram til að byggja upp þann viðræðugrundvöll sem þar virtist í augsýn.Svo virðist sem samninganefnd borgarinnar og borgarstjóri tali í kross, með þeim afleiðingum að upplýsingagjöf er ekki skýr og ómögulegt að leggja mat á raunverulega stöðu deilunnar.„Okkur er einfaldlega ekki ljóst við hvern við erum að semja og hver hefur raunverulegt umboð til að leysa málið af hálfu borgarinnar. Borgarstjóri lofar öllu fögru í fjölmiðlum, en það sem gerist í samningaherberginu er í engu samræmi við það,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.„Svo virðist sem borgarstjóri hafi stigið inn í þessa kjaradeilu í fjölmiðlum ekki til að stuðla að lausn hennar á heiðarlegum forsendum heldur til að afvegaleiða okkur, félagsmenn Eflingar, fjölmiðla og almenning. Hver er raunverulegur ásetningur Reykjavíkurborgar og hver er í brúnni? Ég á ekki svar við því og get ekkert fært félagsmönnum af þessum fundi annað en vonbrigði. Tíminn er runninn út fyrir leiki og það er miður að Reykjavíkurborg skynji það ekki,“ sagði Sólveig Anna.Ótímabundið verkfall og barátta Eflingarfélaga heldur áfram.