Þriðji samstöðu- og baráttufundur félaga í Eflingu og stuðningsfólks þeirra var haldinn í Iðnó í dag.Að vanda var húsfyllir, góð stemning og mikill baráttuhugur í fólki.Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur stýrði fundinum af mikilli röggsemi en baráttusöngur í flutningi kvennakórsins Kötlu markaði upphaf hans.Á fundinum fjallaði Tatjana Latinovic, formaður KRFÍ um jafnrétti og hlutskipti kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði. Theodór Ingi Ólafsson, foreldri í fæðingarorlofi og faðir tveggja leikskólabarna flutti hugleiðingar sínar um mikilvægi leikskólastarfs og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara um mikilvægi umönnunarstarfa á hjúkrunarheimilum.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar hélt barátturæðu og í lok fundar stormaði hópurinn yfir í ráðhúsið þar sem kvennakórinn Katla flutti lagið Áfram stelpur við góðar undirtektir.Á facebooksíðu Eflingar má sjá fleiri myndir og myndband af flutningi kórsins í ráðhúsinu.