Efling fagnar því að borgarfulltrúar í Reykjavík stígi fram og tjái sig um kjaraviðræður borgarinnar við láglaunafólk í Eflingu. Efling vill þó koma á framfæri athugasemd við yfirlýsingu fulltrúa borgarmeirihlutans sem bókuð var á fundi borgarráðs Reykjavíkur þann 30. janúar síðastliðinn. Yfirlýsingin var lögð fram af Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, Líf Magneudóttur, Dóru Björt Guðjónsdóttur og Heiðu Björg Hilmisdóttur.Í yfirlýsingunni er rætt um „samstöðu“ sem hafi verið „staðfest“ með svokölluðum lífskjarasamningum vorið 2019 og því haldið fram samningarnir hafi verið „undirritaðir af allri verkalýðshreyfingunni.“ Enn fremur er fullyrt að „öll verkalýðsfélög landsins sem lokið hafa samningum [hafi] samið á grunni þeirra.“ Lesa má yfirlýsinguna á fundargerðavef Borgarráðs.Efling vill benda á að það samþykki sem félagsmenn Eflingar á almennum vinnumarkaði gáfu við kjarasamningi Eflingar og SA með atkvæðagreiðslu í apríl 2019 felur ekki í sér samþykki á einu eða neinu fyrir hönd félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Eflingarfélagar hjá borginni starfa undir eigin kjarasamningi og hafa sjálfstætt samningsumboð sem varið er af lögum og stjórnarskrá. Þeir greiddu ekki atkvæði um samning á almennum vinnumarkaði og komu ekki að gerð hans. Undirritun kjarasamnings á almennum vinnumarkaði fyrir tæpu ári bindur því ekki hendur samninganefndar Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg. Efling óskar þess að samningsumboð félagsmanna sé virt.Efling hefur bent á að kjarasamningsákvæði, kjör og starfsaðstæður sem snúa að borgarstarfsmönnum eru ólík því sem þekkist á almennum vinnumarkaði. Af þeirri ástæðu einni er hæpið að forsendur og útfærslur samninga á almennum vinnumarkaði geti átt við um láglaunafólk hjá borginni. Láglaunafólk hjá sveitarfélögum er bundið taxtalaunum án möguleika á því að semja um markaðslaun og hefur í mörgum tilfellum mjög takmarkaðan aðgang að yfirvinnu og vaktavinnnu. Þá hafa ráðningarbann í kjölfar kreppu og þensla síðasta áratugar haft sérstök áhrif á mönnun og álag á grunnstofnunum borgarinnar.Þá er mikilvægt að leiðrétta þann misskilning borgarfulltrúanna að öll verkalýðsfélög landsins hafi samið á grunni lífskjarasamninganna. Enn er ósamið við félög innan BSRB, sem héldu öflugan baráttufund í Háskólabíó í síðustu viku. Auk þess hefur Efling birt athugun sem sýnir að fjármálaráðuneytið samdi fyrir jól við aðildarfélög BHM um miklu hærri launahækkanir en í lífskjarasamningnum til handa hátt launuðum ríkisstarfsmönnum.Að lokum skal bent á að samninganefnd Eflingar hefur margítrekað lýst sig reiðubúna til að semja við borgina út frá forsendum lífskjarsamningsins, það er að segja að hækka lægstu laun umfram önnur laun. Þetta eru grunnatriðin í hugmyndafræði kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá apríl 2019. Samninganefnd Eflingar hefur með hliðsjón af þessu lagt fram tillögu sem styrkir þá hugmyndafræði með því að gera enn hnitmiðaðri viðbótarhækkanir á lægstu launum og að nota til þess fyrirliggjandi rekstrarsvigrúm borgarinnar samkvæmt fjárhagsáætlun hennar sjálfrar.Texti yfirlýsingar borgarfulltrúanna:Umboð samninganefndar Reykjavíkur er ótvírætt. Ekkert kallar á breytingu á því að samið sé um kaup og kjör annarstaðar en við samningaborðið. Staðan er augljóslega viðkvæm en mikilvægt er að sú samstaða haldi sem lífskjarasamningarnir staðfestu síðasta vor. Samningarnir voru undirritaðir af allri verkalýðshreyfingunni og Samtökum atvinnulífsins. Auk þess var í lífskjarasamningnum sérstök yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um tekjuskatt, fæðingarorlof, barnabætur, húsnæðismál, lífeyrismál, félagsleg undirboð, hagstjórn, verðlag og verðtryggingu ásamt einföldun regluverks og eftirlits. Þá hefur lífskjarasamningurinn þau skýru ákvæði að lægstu laun hækki umfram önnur laun. Tilboð borgarinnar í öllum viðræðum hafa endurspeglað áherslur lífskjarasamningana enda hafa öll verkalýðsfélög landsins sem lokið hafa samningum, samið á grunni þeirra, bæði við undirritun og í þeirri samningalotu sem nú stendur yfir.