Stöndum með láglaunafólki og komum í veg fyrir skólalokanir og þjónustufall eftir Covid-19Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) á enn ósamið við starfsfólk sitt innan Eflingar. Þetta fólk vinnur t.a.m. í skólum og við ræstingu, í heimaþjónustu og við viðhald og gatnagerð í Kópavogi, Seltjarnarnesi, Ölfusi, Hveragerði og Mosfellsbæ.Íbúar þessara sveitarfélaga fundu flestir fyrir skertri þjónustu og skólastarfi í verkföllum félagsmanna Eflingar 9.-24. mars. Samninganefnd Eflingar ákvað að gera hlé á verkfallinu vegna Covid-19 faraldursins þar til eðlilegt ástand skapaðist aftur í samfélaginu. Áður en verkfalli var frestað höfðu viðræður við SÍS verið strjálar og árangurslausar.Félagar Eflingar innan SÍS hafa snúið aftur til starfa í miðjum veirufaraldri. Með því hafa þeir hætt eigin öryggi til að umhverfið sé hirt, skólastarf geti haldið áfram og viðkvæmir einstaklingar og aldraðir fengið viðeigandi aðstoð. Þannig taka félagsmenn Eflingar á sig þungar byrðar þrátt fyrir skammarlega lág laun og þrátt fyrir að hafa verið samningslausir í heilt ár.Eflingarfélagar í nærsveitafélögum Reykjavíkur fara ekki fram á ósanngjörn kjör. Raunar fara þeir eingöngu fram á sömu leiðréttingu og Eflingarfélagar þeirra hjá Reykjavíkurborg sem sinna sömu störfum. Engar kröfur eru gerðar til SÍS umfram Reykjavíkurborgarsamninginn. Því er hægt að binda endi á deiluna með því einu að gera sambærilegan samning.Félagar í Eflingu hjá sveitarfélögunum eru eðlilega sárir og reiðir yfir því að SÍS sýni engan samningsvilja í deilunni. Þeir upplifa lítilsvirðingu og vanmat á störfum sínum, sem þó eru svo mikilvæg í samfélaginu. Eðlilega spyrja þeir sig hvers vegna SÍS sýni þeim ekki sömu virðingu og þeir sjálfir sýni sínum verkefnum.Ef enn verður ósamið við Eflingarfélaga innan SÍS þegar kórónaveirufaraldurinn hefur gengið yfir munu þeir kjósa aftur um verkfall. Yfirgnæfandi líkur eru þá á því að skólastarf, leikskólastarf og önnur grunnþjónusta sem er svo mikilvæg að komist í rétt horf, geri það ekki.Við hvetjum bæjarbúa Kópavogs, Seltjarnarness, Ölfuss, Hveragerðis og Mosfellsbæjar til að styðja fólkið sem vinnur fyrir það og þrýsta á SÍS að semji við það.Styðjum okkar fólk með því að skrifa undir hér og deila áfram:Undirskiftarlisti