Stjórn Eflingar – stéttarfélags lýsir vonbrigðum með aðgerðapakka vegna Kórónaveirufaraldursins sem stjórnvöld kynntu í gær 21. apríl.Í pakkanum er ekki komið til móts við þær kröfur sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram, sérstaklega varðandi vernd ýmissa hópa sem hafa orðið útundan í fyrri aðgerðapakka. Stjórn Eflingar vakti athygli á stöðu slíkra hópa í ályktun frá 7. apríl síðastliðnum, til dæmis þeirra sem eru í 45% starfshlutfalli eða minna og foreldra sem neyðast til að missa úr vinnu vegna skertrar opnunar skóla. ASÍ og BSRB hafa talað skýrt til stjórnvalda varðandi þessa hópa og það er miður að það sé fyrir daufum eyrum.Stjórn Eflingar minnir einnig á að vegna stóraukins atvinnuleysis þarf að aðlaga hefðbundnar atvinnuleysisbætur. Stjórn minnir á fyrri ályktun þar sem kallað var eftir hækkun á atvinnuleysisbótum og rýmkun skilmála, sér í lagi að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar, hlutfall tekjutengingar hækkað, tímabil á tekjutengdum bótum lengt og tveggja vikna biðtími á grunnatvinnuleysisbótum áður en tekjutengdar bætur taka við afnuminn.Stjórn Eflingar fagnar bónusgreiðslum til framlínustarfsmanna. Mikilvægt er að ómissandi Eflingarstarfsmenn sem starfa í framlínu þrifa, aðhlynningar og umönnunar gleymist ekki við úthlutun þessa bónuss. Slíkt væri ólíðandi óréttlæti.