Faraldurinn leikur félagsmenn grátt

Hátt í  helmingur félagsmanna Eflingar á almennum vinnumarkaði hafði orðið fyrir breytingu á starfi sínu vegna áhrifa frá Covid-19 undir lok apríl að því er fram kemur í niðurstöðum spurningakönnunar Maskínu fyrir stéttarfélagið. Hjá miklum meirihluta þeirra sem urðu fyrir breytingum, eða tæpum fjórðungi allra svarenda, hafði starfshlutfall verið skert og 5% allra svarenda hafði verið sagt upp störfum. Spurningalisti Eflingar var borinn undir 1.843 manna úrtak íslensku-, ensku- og pólskumælandi félagsmanna dagana 8. -24. apríl og svöruðu 875 eða 47,5%. Af niðurstöðunum er ljóst að Covid-19 hefur haft verulega íþyngjandi áhrif á stöðu félagsmanna Eflingar á almennum vinnumarkaði.Alls höfðu hátt í 20% þeirra sem unnu í skertu starfshlutfalli enn ekki nýtt sér úrræði Vinnumálastofnunar um að sækja sér bætur á móti skertu starfshlutfalli þegar könnunin var gerð. Einnig leiddi könnunin í ljós ýmis konar misbresti í framkvæmd uppsagna og skerðingar starfshlutfalls starfsmanna. Einungis tæp 60%  starfsmanna með skert starfshlutfall sögðu að gengið hefði verið frá skriflegu samkomulagi milli þeirra og vinnuveitanda um skerðinguna. Þá sagðist þónokkur hópur þeirra sem sagt hafði verið upp störfum ekki fá uppsagnafrest greiddan.Af heildarúrtakinu höfðu rúm 20% þurft að vera heima með barn/börn í tengslum við skerta þjónustu leik- og/eða grunnskóla vegna Covid-19. Flestir úr þeim hópi eða 58% sögðust hafa unnið eins og þeir hafi getað og haldið launum.  Aðrir eða hátt í 40% eru í þrengri stöðu, hafa þurft að nýta orlofsdaga eða taka sér launalaust leyfi eða vita jafnvel ekki hvort þeir haldi launum.  Í þeim hópi eru hlutfallslega nokkuð fleiri starfsmenn af erlendum uppruna en íslenskum.Flestir segja að álag í starfi hafi minnkað eða staðið í stað vegna Covid-19. Hátt í 22%  segja þó að álag í starfi hafi aukist. Þó segja langflestir að vinnuveitandi þeirra áformi ekki að greiða sérstaklega fyrir aukið álag. Rétt er að taka fram að könnunin tók ekki til starfsmanna í umönnunarstörfum.Hátt í helmingur svarenda sagðist búa í leiguhúsnæði og hafði fimmti hver þeirra áhyggjur af því að missa húsnæðið. Félagsmenn Eflingar af erlendum uppruna eru líklegri en aðrir til að búa í leiguhúsnæði. Þeir hafa einnig mun meiri áhyggjur af því að geta ekki staðið skil á húsnæðiskostnaði. Af heildarhópnum sögðu ríflega 55% að fjárhagsáhyggjur þeirra hefðu aukist nokkuð eða mikið.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að á sama tíma og faraldurinn afhjúpi mikilvægi framlínustarfa leiki hann félagsmenn grátt. „Okkar félagsmenn eru í afar viðkvæmri stöðu. Lítið má út af bregða til að fjárhagslegu öryggi þeirra sé ógnað. Stjórnvöldum ber skylda til að skapa fólki ný störf, styðja við bakið á leigjendum, greiða framlínufólki álag og tryggja að fólk á lágmarkslaunum missi ekki tekjur vegna  lokunar skóla. Annað er ekki réttlætanlegt.“