Ný stjórn Sólveigar Önnu tekur við stjórnartaumum

21. 05, 2020

Ný stjórn undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur tók við stjórnartaumum Eflingar á aðalfundi stéttarfélagsins á Hótel Sögu miðvikudaginn 20. maí. Varaformaður stjórnar er Agnieszka Ewa Ziólkowska. Aðrir fulltrúar í stjórn Eflingar eru Eva Ágústsdóttir, Kolbrún Valvesdóttir, Guðmundur Baldursson, Daníel Örn Arnarsson, Michael Bragi Whalley, Innocentia Fiati, Felix Kofi Adjahoe, Ólöf Helga Adolfsdóttir, Jóna Sveinsdóttir, Stefán E. Sigurðsson, Úlfar Snæbjörn Magnússon, Zsófía Sidlovits og Þorsteinn M. Kristjánsson. Engin mótframboð bárust við lista Sólveigar Önnu og því var stjórnin sjálfkjörin. Á fundinum var jafnframt lýst kjöri stjórna sjóða félagsins.Í yfirferð yfir skýrslu stjórnar rifjaði Sólveig Anna upp að félagar í Eflingu hefðu háð harðvítuga kjarabaráttu í vetur. „Þegar ég tók við sem formaður voru margir sem sögðu við mig að fólk vildi ekki herskáa verkalýðsbaráttu, að fólk vildi halda áfram á þeirri braut stéttasamvinnu sem tíðkast hafði lengi. En eins og þið vitið og þekkið hefur annað komið í ljós. Niðurstöður þeirra verkfallskosninga sem við höfum farið í sýna með einstaklega skýrum og afdráttarlausum hætti hver vilji vinnandi fólks er og það að við vitum sannarlega hvað sterkasta vopnið okkar er; fjöldasamstaðan sem er fólgin í því að leggja saman niður störf og knýja þannig á um kjarabætur og samninga sem við sjálf erum sátt við að skrifa undir,“ sagði hún í því sambandi.Sólveig Anna minnti á að efnt hefði verið til skipulagsbreytinga á skrifstofu Eflingar í því skyni að bæta innra skipulag og efla þjónustu við félagsmenn þann 2. september í fyrra. Breytingarnar hefðu skilað sér í öflugu þróunar- og þjónustustarfi við sífjölgandi félagahóp. Sólveig Anna nefndi m.a. að tekið hefði verið í notkun nýtt afgreiðslukerfi í móttöku Eflingar og ýtt hefði verið úr vör innleiðingarferli á svokölluðum Mínum síðum. Starfsmenn Eflingar hefðu unnið ötullega að því að leysa úr flóknum úrlausnarmálum félagsmanna, aðstoða við trúnaðarmannakosningar og heimsækja vinnustaði og skóla í fræðsluskyni. Síðast en ekki síst væri unnið dýrmætt starf í tengslum við úthlutun og uppbygginu sumarhúsa.Efling er nú annað fjölmennasta stéttarfélag landsins með hátt í 27.000 félagsmenn. Ríflega 55% félagsmanna eru af erlendum uppruna og eru Pólverjar þar fjölmennastir. Næstir á eftir koma Litháar, Lettar, Rúmenar og Filippseyingar. Fram kom að sérstakt átak hefði verið gert í að auka aðgengi félagsmanna af erlendum uppruna að upplýsingum um kjarabaráttu og aðra starfsemi félagsins í gegnum heimasíðu, facebook-síðu og aðrar gáttir félagsins. Heimasíða Eflingar er á þremur tungumálum og hafa starfsmenn skrifstofunnar tök á að veita félagsmönnum þjónustu á 9 tungumálum. Fréttablað Eflingar og ársskýrsla eru gefin út á íslensku og ensku.Í máli Benóní Torfa Eggertssonar, endurskoðanda Eflingar frá endurskoðendafyrirtækinu Deloitte, kom fram að fjárhagur félagsins væri góður.  Eignir Eflingar eru metnar á ríflega 13,5 milljarða og námu tekjur umfram gjöld um 540 milljónum króna á liðnu ári. Sjóðir félagsins standa vel þó tap hafi verið á Sjúkrasjóði vegna aukinnar ásóknar í styrki úr sjóðnum á liðnu ári. Skoðun mun fara fram á stöðu sjóðsins. Aukin ásókn hefur einnig verið í styrki sjúkrasjóða annarra stéttarfélaga á liðnum árum.Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sagði að ársreikningur Eflingar endurspeglaði vaxandi starfsemi stéttarfélagsins á liðnu starfsári. Fjárhagur stéttarfélagsins væri góður og ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af því þó að iðgjöld myndu lækka tímabundið vegna Covid-19 faraldursins. Hann nefndi að sú nýbreytni hefði verið tekin upp að vinna fjárhagsáætlun fyrir hvert svið fyrir sig. Með því væri stuðlað að agaðri fjármálastjórnun. Eftir umræður var ársreikningur Eflingar samþykktur mótatkvæðalaust.