Baráttuhugur var í Eflingarfélögum á félagssvæði Eflingar í Kópvogi, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, Hveragerði og Ölfusi á samstöðufundi stéttarfélagsins í safnaðarheimili Digraneskirkju og í streymi á facebooksíðu Eflingar kl. 12.30 í dag. Fundurinn markaði annað upphaf verkfallsaðgerða stéttarfélagsins gagnvart sveitarfélögunum á stuttum tíma. Hlé var gert á verkfallsaðgerðum vegna Covid-19 faraldursins þann 25. mars síðastliðinn. Samningar við félagsmenn Eflingar hafa verið lausir í ríflega eitt ár.Á fundinum rifjaði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, upp að farið væri fram á sömu kjarabætur og þegar hefðu fengist fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar og ríkis í sömu störfum. Stjórnendur hjá sveitarfélögunum hefðu sýnt starfsmönnum sínum lítilsvirðingu með því að hafna því alfarið að veita þeim sömu kjarabætur og þessum hópum.Hún hrósaði félagsmönnum sínum fyrir baráttuhugann. „Ég vissi ekki á hverju ég átti von þegar aftur var boðið til kosninga um verkfallsaðgerðir og varð ótrúlega stolt þegar ég áttaði mig á því að kosningaþátttakan var enn meiri og enn fleiri kusu með verkfallsaðgerðum heldur en í fyrra skiptið,“ sagði hún. Alls tóku 65% félagsmanna á svæðinu þátt í kosningu um verkfallsaðgerðir og voru aðgerðirnar samþykktar með 90% atkvæða.Fram kom að Efling hefði verið lausnamiðuð um viðræðum sínum við sveitarfélögin. Drög að samningi lægi fyrir og aðeins vantaði áhuga hjá SÍS til að koma til móts við stéttarfélagið til að leysa deiluna. Því miður hefðu SÍS ekki sýnt mikla viðleitni til samninga og raunar hefði formaður SÍS gengið svo langt að tala um að lög yrðu sett á verkfallið þó slíkt væri harla óraunhæft.Sólveig Anna lagði að lokum áherslu á að kjarabarátta Eflingar skilaði árangri. „Baráttukraftur Eflingar hefur skilað því að ekki er lengur hægt að segja fólki bara að þegja og halda áfram að vinna. Við munu nota allan okkar kraft og drjúga verkfallssjóði Eflingar til að ná markmiði okkar. Við gefumst ekki upp,“ sagði hún við lófaklapp félagsmanna.