Vegna umræðu um samkomulag um starfsmannaleigur

Vegna ummæla framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í Morgunútvarpi Rásar 2 í gær 30. júní um starfsmannaleigur og hugmyndir um gæðavottun verkalýðshreyfingarinnar á þeim vill Efling – stéttarfélag koma eftirfarandi á framfæri.Eflingu er kunnugt um viljayfirlýsingu um gæðavottun á starfsmannaleigum sem unnin var á milli Samtaka atvinnulífsins og Gylfa Arnbjörnssonar í tíð hans sem forseti Alþýðusambands Íslands. Yfirlýsing þessi hefur aldrei komið til framkvæmdar.Samtök atvinnulífsins blanda nú framkvæmd þessarar viljayfirlýsingar saman við uppfyllingu loforða um sektir gegn brotastarfsemi sem gefin voru út í tengslum við svokallaða Lífskjarasamninga, sem Efling og SA undirritaðu í apríl 2019. Aldrei var minnst á viljayfirlýsingu þessa í kjaraviðræðum Eflingar og SA og aldrei lýstu SA þeirri fyrirætlun sinni að gera uppfyllingu Lífskjarasamninganna háða framkvæmd hennar.Yfirlýsingin um gæðavottun á starfsmannaleigum hefur verið grannskoðuð af þeim sem best þekkja til brotastarfsemi á vinnumarkaði hjá Eflingu. Hún hefur verið metin í ljósi annarra slíkra samkomulaga og fyrirliggjandi eftirlitsheimilda í vinnustaðaeftirliti verkalýðshreyfingarinnar og hjá hinu opinbera. Umrædd viljayfirlýsing felur að mati Eflingar ekki í sér neinar raunverulegar takmarkanir á möguleikum starfsmannaleiga til að beita starfsfólk sitt svikum og harðræði.Efling horfir meðal annars til reynslunnar af verkefninu „Vakinn“ sem ætlað var að gæðavotta ferðaþjónustufyrirtæki. Verkalýðshreyfingin dró sig út úr verkefninu þar sem það skilaði ekki tilætluðum árangri.Ekki er hægt að horfa fram hjá því að Samtök atvinnulífsins eru í reynd svarnir andstæðingar þess að spornað sé af alvöru gegn óheiðvirðum starfsháttum starfsmannaleiga. Efling minnir á framgöngu lögmanns SA í fréttum í júlí 2019 þar sem hann mótmælti og gerði lítið úr viðleitni Eflingar til að verja réttindi rúmenskra starfsmanna hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu (í dag Seigla ehf.). Í ljósi þess að SA hefur þannig tekið til opinberra varna fyrir landsþekkta brotamenn í starfsmannaleigugeiranum telur Efling að yfirlýsing um áhuga SA á samstarfi um „heilbrigðan vinnumarkað“ hjá starfsmannaleigum sé ekki hægt að taka alvarlega.Niðurstaða Eflingar er skýr: í viljayfirlýsingu SA um starfsmannaleigur er um að ræða hvítþvott, til þess fallinn að ákveðnar starfsmannaleigur innan SA geti fegrað ímynd sína án raunverulegra úrbóta fyrir fórnarlömb brotastarfsemi á vinnumarkaði.Efling bendir Samtökum atvinnulífsins á að þeim er frjálst að gangast í ábyrgð fyrir heiðarleika og löghlýðni tiltekinna fyrirtækja að eigin frumkvæði. Slíkt krefst ekki þátttöku verkalýðshreyfingarinnar. Einnig bendir Efling á að ýmiss konar vottunarþjónusta er í boði á hinum almenna markaði sem fyrirtæki geta sjálfviljug undirgengist. Slíkt krefst heldur ekki þátttöku verkalýðshreyfingarinnar.Efling er reiðubúin að eiga samstarf við samtök atvinnurekenda og einstök fyrirtæki um skilgreind verkefni þar sem samstarfið er ekki á kostnað trúverðuleika annars aðilans. Slíkt er ekki tilfellið í umræddri yfirlýsingu.Efling kallar eftir því að látið verði af hvítþvotti og sýndargjörningum þegar kemur að brotastarfsemi á vinnumarkaði. Tími er kominn til að gerendur axli ábyrgð. Gerendum ber að sæta afleiðingum fyrir launaþjófnað og misnotkun á verkafólki. Því hefur þegar verið lofað í yfirlýsingu stjórnvalda vegna Lífskjarasamninganna. Samtök atvinnulífsins hafa engan rétt á að hamla framkvæmd þeirrar yfirlýsingar. Efling mun draga alla þá sem svíkja þessi loforð og standa í vegi fyrir uppfyllingu þeirra til ábyrgðar á opinberum vettvangi.