Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, sendi í dag bréf á fulltrúa ríkisstjórnarinnar þar sem þess er krafist að staðið sé við loforð gefin í apríl í fyrra um viðurlög við kjarasamningsbrotum. Skeytið er í formi kröfubréfs, áþekku þeim 700 sem send eru frá félaginu árlega vegna kjarasamningsbrota atvinnurekenda. Loforð stjórnvalda hefur legið sofandi í nefnd svo mánuðum skiptir.„Getur verið að það sé vegna þess að áhugi stjórnvalda á lífskjörum og aðstæðum verka- og láglaunafólks á Íslandi sé svona takmarkaður?“ spyr Sólveig í bréfinu. „Ég leyfi mér líka að fullyrða að ef fjármagnseigendur eða útgerðarmenn yrðu fyrir stórkostlegum stuldi og ömurlegri framkomu, þyrftu þeir ekki að bíða lengi eftir því að stjórnvöld skærust í leikinn.“Í bréfinu er farið fram á að skrifleg svör verði veitt um hvernig loforðið verði uppfyllt. Ef þau berist ekki „áskil ég mér fullan rétt til að gera það sem í mínu valdi stendur sem formaður Eflingar til að knýja á um að þið standið við orð ykkar.“