Stóra skömmin

Þúsundir verkafólks verða fyrir launaþjófnaði af hálfu atvinnurekanda á hverjum ári. Engin viðurlög eru við þessum brotum. Samtök atvinnulífsins standa í vegi fyrir því að eitt mikilvægasta loforð stjórnvalda um að heimila sektir vegna launaþjófnaðar verði að raunveruleika. Við gerð hinna svokölluðu Lífskjarasamninga var því lofað að heimila sektir fyrir brot gegn lágmarkskjörum verkafólks. Lítið er um efndir og hafa SA lagst gegn vel útfærðum og sanngjörnum lausnum sem ASÍ hefur lagt fram.Sólveig Anna Jónsdóttir vekur athygli á þessum skammarblett í grein í Fréttablaðinu í dag.Refsileysi fyrir þjófnað á launum verkafólks er stóra skömmin á íslenskum vinnumarkaði. Árlega eru þúsundir verkafólks á Íslandi hlunnfarnar um laun, sem þau ýmist sjá aldrei eða þurfa að fá aðstoð stéttarfélaga við að innheimta. Meðalupphæð launakrafna sem Efling vann fyrir sitt félagsfólk árið 2019 var 492 þúsund krónur. Slíkar kröfur skipta hundruðum ár hvert.Við gerð hinna svokölluðu Lífskjarasamninga skuldbatt ríkið sig til að hreinsa loksins þennan skammarblett. Lofað var að heimila sektir fyrir brot gegn lágmarkskjörum verkafólks (sjá lið 22 í skjalinu „Stuðningur stjórnvalda við Lífskjarasamningana“).Vinna fór af stað á vegum Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra þar sem fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands áttu að gera tillögur um lagabreytingar. ASÍ hefur þar lagt fram vel útfærðar og sanngjarnar lausnir. Samtök atvinnulífsins hafa hins vegar lagst gegn öllum tillögum og stöðvað framgang málsins. Með því er ráðist gegn einni af mikilvægustu forsendum gildandi kjarasamnings.Reyndin virðist vera sú að SA er ekki treystandi til að starfa samkvæmt lögum og á grunni þess samkomulags sem þau sjálf hafa fallist á. Í stað þess að standa vörð um eigin kjarasamninga standa þau vörð um þá sem brjóta þá.Lögleysa í margvíslegum skilningi á sér öflugan málsvara í Samtökum atvinnulífsins. Þar fara fremstir Sjálfstæðismenn af nýrri kynslóð, skólaðir í taumleysi góðærisáranna og skyndigróða ferðaþjónustubólunnar. Í huga þeirra virðast venjur og lágmarksheilindi við samningagerð engu máli skipta.En verkafólk á Íslandi á sér líka öfluga hreyfingu og sterk vopn. Atvinnurekendur fengu vorið 2019 langan kjarasamning þar sem þeim var veittur friður til nóvember 2022. Gildi samningsins er hins vegar háð því að hann og forsendur hans séu virtar. Gerist það ekki mun félagsfólk í Eflingu knýja fram efndir með öðrum leiðum.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður EflingarBirt í Fréttablaðinu 18.01.2020