Úrslit í ljósmyndasamkeppni Orlofsblaðs Eflingar

16. 09, 2020

Í vor efndi Orlofsblað Eflingar til ljósmyndasamkeppni þar sem óskað var eftir myndum úr sumarleyfi félagsmanna. Umsóknarfrestur rann út 31. ágúst. Dómnefnd hefur nú valið úr aðsendum myndum og hlaut myndin Appelsínugul viðvörun sigur úr bítum. Ljósmyndarinn er Berglind Kristinsdóttir og fær hún 25.000 kr. í verðlaun.Í umsögn dómnefndar segir:  Myndin er af náttúruperlunni Reynisdröngum. Eins og titillinn ber með sér er hún tekin í appelsínugulri veðurviðvörun sem útskýrir kannski fámennið á þessum fjölsótta ferðamannastað. Tveir drangar rísa tignarlegir upp úr beljandi hafinu þar sem þeir hafa staðið fastir fyrir, öldum saman. Í forgrunni stendur ferðamaður líkt og þriðji dranginn sem rís upp úr svörtum sandinum. Hann hefur ekki látið litríkar viðvaranir stoppa sín ferðalög þrátt fyrir að ólíkt náttúruundrunum sjálfum sé hann mannlegur og berskjaldaður fyrir veðri, vindum og öðrum utanaðkomandi hættum. Í varnarleysi sínu freistar hann þess að festa upplifun sína á filmu.Við óskum Berglindi innilega til hamingju með sigurinn.

Appelsínugul viðvörun – Sigurmyndin í ljósmyndasamkeppni Orlofsblaðsins.