Á stjórnarfundi Eflingar í dag var samþykkt ályktun þar sem þátttaka ASÍ í sameiginlegri yfirlýsingu sambandsins, SA og Icelandair er harðlega gagnrýnd.Ályktun dags. 17. september 2020Stjórn Eflingar lýsir andstöðu við þátttöku Alþýðusambands Íslands í yfirlýsingu sem undirrituð var við Icelandair og Samtök atvinnulífsins og birt í dag 17. september 2020.Stjórn Eflingar gagnrýnir harðlega að Alþýðusambandið hafi tekið þátt í að hvítþvo brot Icelandair og Samtaka atvinnulífsins á vinnumarkaðslöggjöfinni frá því fyrr í sumar með því að kalla þau „brot á samskiptareglum“.Umrædd yfirlýsing veitir enga lagalega vernd eða tryggingu gegn því að önnur fyrirtæki muni síðar beita sömu aðförum.Alþýðusamband Íslands átti að draga Icelandair og Samtök atvinnulífsins til fullrar ábyrgðar fyrir Félagsdómi vegna brota þeirra líkt og áður var samþykkt í miðstjórn ASÍ. Þannig hefði verið staðinn sómasamlegur vörður um réttindi launafólks.Stjórn Eflingar gagnrýnir að miðstjórn Alþýðusambands Íslands taki með þessum hætti þátt í tækifærissinnaðri sérhagsmunagæslu einkafyrirtækis.Ásetningur Samtaka atvinnulífsins um að grafa undan íslenskri vinnumarkaðslöggjöf er öllum kunnur og er umrædd yfirlýsing ósigur í baráttu verkalýðshreyfingarinnar gegn því.Alþýðusamband Íslands hefur að mati stjórnar Eflingar beðið álitshnekki.