Launaþjófnaður – svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði

Efling – stéttarfélag hefur blásið til herferðar til að þrýsta á um að launaþjófnaður atvinnurekenda gagnvart launafólki verði gerður refsiverður á Íslandi. Launaþjófnaður er sívaxandi vandamál á íslenskum vinnumarkaði og kemur harðast niður á láglaunafólki. Heildarkröfur Eflingar vegna vangoldinna launa Eflingarfélaga námu ríflega milljarði á síðustu fimm árum. Launaþjófnaður er mun viðameira vandamál heldur en þessar tölur gefa til kynna enda fleiri stéttarfélög sem taka við erindum félagsmanna um vangoldin laun. Auk þess leitar ekki nándar nærri allt launafólk réttar síns gagnvart atvinnurekendum af ótta við að missa vinnuna.Sífellt fleira launafólk leitar eftir aðstoð stéttarfélaga við að krefja atvinnurekendur um vangoldin laun. Kröfum Kjaramálasviðs Eflingar fyrir hönd félagsmanna hefur fjölgað úr 200 á ári upp í 700 á síðustu fimm árum. Að sama skapi hefur heildarupphæð krafna farið stighækkandi og nam 345 milljónum króna á síðasta ári. Kröfur stéttarfélagsins fyrir hönd einstakra félagsmanna nema oftast á bilinu 380 til 490 þúsund kr. og langan tíma  getur tekið að innheimta hverja kröfu fyrir sig. Á meðan situr launamaðurinn uppi með skaðann af því að geta ekki séð sér fyrir nauðþurftum og staðið skil á skuldbindingum eins og leigu.Engin sekt eða bótaupphæð bætist ofan á launakröfur og því hafa atvinnurekendur engan hvata til að leiðrétta vangoldin laun hjá öðrum en þeim sem leita réttar síns. Eina leiðin til að setja þrýsting í þessum tilvikum er að fara í mál gagnvart atvinnurekanda fyrir dómstólum og nema bætur þá oftast aðeins málskostnaði og dráttarvöxtum. Efling krefst þess að refsing vegna launaþjófnaðar nemi minnst 100% af launakröfu vegna stolinna launa. Lægri sekt styður aðeins við ábata atvinnurekenda af þjófnaði úr vösum verkafólks.Hvorki launaþjófnaður né önnur brot gagnvart lágmarkskjörum verkafólks eru refsiverð í íslenskri löggjöf enda þótt dæmi séu um slík viðurlög í kjarasamningum. Hægt er að nefna að heimilt er að sekta útgerðir um hátt í 600.000 kr. vegna launaundanskots í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands. Efling fór fram á að viðurlög af þessu tagi yrðu sett inn í kjarasamning sinn við Samtök atvinnulífsins veturinn 2018 til 2019. Í framhaldi af því gáfu stjórnvöld loforð um að slík viðurlög yrðu sett inn í íslenska löggjöf í yfirlýsingu undir yfirskriftinni Stuðningur stjórnvalda við lífskjarasamningana. Ekkert bólar þó á efndum þrátt fyrir ítrekaðar áminningar þar um.Á sama tíma hafa þó stjórnvöld fært inn í íslenska löggjöf ýmis konar sektarákvæði og er í því sambandi nærtækast að nefna að til stendur að sekta strætófarþega um sextíufalda upphæð fargjalds fyrir að greiða ekki fyrir staka ferð.Efling krefst þess að stjórnvöld standi við orð sín og komi í veg fyrir að atvinnurekendur haldi áfram að seilast í laun lægst launaða fólksins á íslenskum vinnumarkaði.Frekari upplýsingar um herferðina má finna hér