Brotastarfsemi – hagur atvinnurekenda?

23. 10, 2020

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar gerir andstöðu Samtaka atvinnulífsins við því að uppræta hvers konar brotastarfsemi á vinnumarkaði að umtalsefni í öflugri grein í Morgunblaðinu í dag.

Brotastarfsemi – hagur atvinnurekenda?

Í janúar 2019 birtust fréttir um hörmulegan aðbúnað rúmenskra verkamanna sem narraðir höfðu verið til landsins á vegum starfsmannaleigunnar Menn í vinnu. Mennirnir leituðu réttar síns og hefur Efling rekið dómsmál fyrir þeirra hönd. Í tilefni af þessu steig lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins fram til varnar í fjölmiðlum fyrir Menn í vinnu og notendafyrirtækið Eldum rétt.Í desember 2019 greip hópur starfsmanna til setuverkfalls á hótelunum City Park Hótel og Capital Hotels til að knýja á um greiðslu vangoldinna launa. Starfsmennirnir fengu á endanum greitt, en þó ekki fyrr en þeir höfðu mátt sæta bréflegum hótunum um hýrudrátt og innheimtu skaðabóta. Hótanirnar komu frá lögfræðingi Samtaka atvinnulífsins.Þann 17. júlí síðastliðinn sagði Icelandair upp hópi starfsmanna sem á þeim tímapunkti voru í kjaradeilu við fyrirtækið og höfðu boðað verkfallsaðgerðir. Til varnar þessari aðgerð steig fram Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Löngu eftir að skaðinn var skeður „harmaði“ hann aðgerðina í yfirlýsingu og viðurkenndi að með henni hefðu lög um stéttarfélög og vinnudeilur verið brotin.Í september 2020 birtist yfirlýsing á vef Samtaka atvinnulífsins þar sem hótað var uppsögn núgildandi kjarasamninga. Í yfirlýsingunni kom fram að stjórnvöld hefðu ekki framkvæmt loforð varðandi verðtryggð húsnæðislán. Vegna þessa sögðust SA hafa tilefni til uppsagnar á samningum, jafnvel þótt loforðið hafi verið gefið til verkalýðshreyfingarinnar og ASÍ lýst því yfir forsendur væru ekki brostnar.Í september og október 2020 stigu bæði formaður og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fram með greinarskrifum til að tala gegn því að sektir verði innleiddar í íslensk lög fyrir það að vangreiða laun. Veturinn 2019-2020 höfðu SA tekið störf nefndar á vegum Félagsmálaráðherra í gíslingu, en nefndin átti að uppfylla loforð til launafólks um aðgerðir gegn launaþjófnaði sem gefin voru út við undirritun Lífskjarasamninganna.Öll tilvikin sem nefnd eru hér fyrir ofan eru ólík en eitt eiga þau þó sameiginlegt: Í viðbrögðunum við þeim kemur fram viðhorf núverandi forystu Samtaka atvinnulífsins til laga, kjarasamninga, orðheldni og heiðursmennsku í samskiptum aðila á íslenskum vinnumarkaði.Það er árangur af langri baráttu verkafólks að flestir íslenskir atvinnurekendur greiða laun og virða réttindi í samræmi við kjarasamninga. Flestir þeirra þröngva ekki starfsfólki í ósamþykkt leiguhúsnæði og kúga svo út úr því stórfjárhæðir. Flestir þeirra sparka ekki fólki úr vinnu fyrir að standa í kjaradeilum. Flestir þeirra kunna að meta þann stöðugleika sem langir kjarasamningar veita og hafa uppsögn þeirra ekki í flimtingum.Reynsla Eflingar er að flestir atvinnurekendur treysta sér til að fara eftir settum lögum og gerðum kjarasamningum, jafnvel þótt þeir kunni að vera ósammála verkalýðshreyfingunni um margt og myndu gjarnan vilja hafa kjarasamninga og lög um vinnumarkað með öðru sniði.Sú spurning hlýtur að vakna hvort varnir Samtaka atvinnulífsins fyrir hvers kyns brotastarfsemi og samningsrofum séu hagur atvinnurekenda og hvort þessi afstaða samtakanna endurspegli vilja atvinnurekenda.Eins og staðan er í dag leggst kostnaðurinn af brotastarfsemi og lögbrotum óheiðarlegra atvinnurekenda beint eða óbeint á alla atvinnurekendur. Starfsmannaleigur sem ástunda mansal og nauðungarvinnu koma óorði á heilu atvinnugreinarnar. Launakostnaður launaþjófa er á endanum iðulega greiddur úr Ábyrgðarsjóði launa, sem allir atvinnurekendur greiða í. Ófriðarbrölt einstakra stórfyrirtækja gagnvart endurnýjun kjarasamninga og lagaramma vinnumarkaðarins ógnar á endanum öllum atvinnurekendum.Atvinnurekendur almennt, sér í lagi þeir sem eru færir um að fara eftir reglum eins og aðrir samfélagsþegnar, hafa ekki hag af því að heildarsamtök atvinnurekenda tali fyrir brotastarfsemi og samningsrofum. Það er allra hagur að uppræta þá meinsemd. Það er á endanum ráðgáta hvers vegna Samtök atvinnulífsins berjast um á hæl og hnakka gegn því.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður EflingarBirt í Morgunblaðinu 23.10.2020