Góð mæting var á trúnaðarráðs- og félagsfund Eflingar sem haldinn var í gær fimmtudaginn 15. október 2020 á fjarfundaforritinu Zoom. Má segja að um tímamótafund hafi verið að ræða þar sem þetta er í fyrsta sinn í sögu Eflingar sem trúnaðarráðsfundur er haldinn rafrænt. Er þetta gert vegna hertra sóttvarnaraðgerða en áður hefur þurft af þeim sökum að fresta og aflýsa fundum sem fyrirhugað var að halda með hefðbundnu sniði.Gekk fundurinn vonum framar og voru þátttakendur ánægðir. Vel gekk að virkja félagsmenn til þátttöku í umræðuhópum en fólki var skipt niður í hópa til að ræða um málefni fundarins. Venjum varðandi fundarstjórn var fylgt og verður að mati félagsins vel hægt að halda fundi löglega með þessu sniði í framtíðinni.Að loknum formlegum fundi var kynning og undirbúningur fyrir þingfulltrúa Eflingar á komandi þingi Alþýðusambands Íslands sem fram fer 21. október næstkomandi.