Launaþjófnaður gegn verka- og láglaunafólki var til umfjöllunar ásamt öðru á fyrsta fundi ársins hjá nýskipuðu trúnaðarráði Eflingar. Fundurinn var haldinn að kvöldi fimmtudags 14. janúar í gegnum fjarfundabúnað líkt og fjórir síðustu fundir ráðsins. Mæting var góð en um 80 trúnaðarráðsfélagar tóku þátt í fundinum auk starfsfólks.Á fundinum hjálpuðust margir félagar í trúnaðarráði að við að senda Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra bréf. Þar er vakin athygli á að við undirritun kjarasamninga í apríl 2019 gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu þar sem lofað var að taka á brotastarfsemi á vinnumarkaði. Loforðið var ítrekað við samninganefnd ASÍ í ágúst síðastliðnum og því lýst yfir að brátt kæmi fram löggjöf um sektir, svokallað févíti, sem rynni til þolenda launaþjófnaðar. Þessi loforð hafa ekki verið efnd og heldur því launaþjófnaður áfram óáreittur.Launagreiðslur sem stolið er af Eflingarfélögum skipta hundruðum milljóna á ári. Meðalupphæð hverrar launakröfu er um hálf milljón króna.Félagsmenn í trúnaðarráði lýstu vonbrigðum með að þessi löggjöf sé ekki enn komin fram og krefjast þess að veitt verði heimild til sektar sem stéttarfélag getur fyrir hönd félagsmanns lagt án tafar á launakröfu þegar laun eru ekki greidd samkvæmt löglegum ráðningarsamningi. Sektin nemi sömu upphæð og höfuðstóll kröfunnar og renni til þolanda.