Prófmál um ábyrgð starfsmannaleiga og notendafyrirtækja gagnvart starfsmönnum sínum

Stefna fjögurra Rúmena gagnvart starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu og fyrirtækinu Eldum rétt verður tekin fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur á morgun, föstudaginn 5. febrúar kl. 9.15. Með stuðningi Eflingar höfða Rúmenarnir málið vegna vangoldinna launa, ólögmæts frádráttar af launum og vanvirðandi meðferðar á meðan á vinnu þeirra í gegnum Menn í vinnu fyrir Eldum rétt stóð. Málavextir endurspegla nöturlegan veruleika farandverkafólks á íslenskum vinnumarkaði.Rúmenarnir  hófu störf hjá Eldum rétt í gegnum starfsmannaleiguna í upphafi ársins 2019. Í stefnunni gagnvart Mönnum í vinnu og Eldum rétt kemur fram að mennirnir hafi verið sviknir um umsamin laun og kjör þeirra hafi ekki verið í samræmi við íslenska kjarasamninga. Með sama hætti hafi kostnaður verið dreginn frá launum þeirra með ólögmætum hætti. Sem dæmi má nefna að dregnar voru að meðaltali 57.063 kr. af launum hvers og eins þeirra fyrir mánaðar húsaleigu í 6-8 manna herbergi við ómannúðlegar aðstæður að Dalvegi 24.Forsvarsmenn Manna í vinnu eiga sér langa sögu af stofnun og rekstri starfsmannaleiga, launasvikum, gjaldþroti og endurkomu samsvarandi starfsemi á nýrri kennitölu. Stefnunni er beint að Eldum rétt á grundvelli keðjuábyrgðar þar sem Rúmenarnir fjórir voru leigðir til starfa hjá fyrirtækinu. Fleiri erlendir starfsmenn Manna í vinnu störfuðu hjá öðrum fyrirtækjum og hafa forsvarsmenn þeirra þegar gert upp laun við sína starfsmenn með milligöngu Eflingar. Forsvarmenn Eldum rétt höfnuðu hins vegar öllu samkomulagi. Alls nema kröfur Eflingar fyrir hönd fjórmenninganna ríflega 6,8 milljónum króna auk vaxta og lögfræðikostnaðar.Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Rúmenanna, segir að í málinu reyni á skyldur starfsmannaleiga og fyrirtækja sem noti þjónustu þeirra og á réttindi starfsmanna sem ráðnir séu til starfsmannaleiga og síðan „leigðir“ til notendafyrirtækja til skemmri eða lengri tíma. „Réttarstaða þessara starfsmanna er afar ótrygg og þeir sæta iðulega illri meðferð og réttindamissi. Sett hafa verið lög til verndar réttindum starfsmanna þessara bæði gagnvart starfsmannaleigum og notendafyrirtækjum og í máli þessu reynir á hvort nægilegt hald er í lögunum fyrir starfsmennina eða hvort þeir eigi enn  á hættu öryggisleysi og réttindaskerðingu.“Efling og önnur stéttarfélög verða óþyrmilega vör við hvernig brotið er á verkamönnum varðandi kjör og aðbúnað á hverjum degi. Slík brot koma harðast niður á erlendum verkamönnum og ungu verkafólki eins og fram kemur í skýrslu ASÍ https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/utgafa/skyrslur-og-baeklingar/hvad-maetir-utlendingum-a-islenskum-vinnumarkadi/. Því miður hefur barátta stéttarfélagsins fyrir því að stjórnvöld standi við gefin loforð um févíti vegna launaþjófnaðar ekki skilað árangri. Þá liggja ekki fyrir efndir stjórnvalda um umbætur í húsnæðismálum. Í nýlegri skýrslu vinnuhóps um óleyfisbúsetu kemur fram að á bilinu 5.000 til 7.000 manns búi í óleyfisbúsetu á Íslandi. Langstærsti hluti þessa hóps er erlent verkafólk. Brýnt er að hratt verði brugðist við umbótum til að tryggja þessum einstaklingum öruggt og mannsæmandi skjól.