Blekkingum beitt til að hefja Grænbókarvinnu

„Eftir að hafa rætt við stjórn Eflingar, trúnaðarráð og almenna Eflingarfélaga er alveg ljóst í mínum huga að við höfum engan einasta áhuga á að þessi vinna sé í gangi,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við Kristján Kristjánsson í þættinum Sprengjusandi á Bylgjunni á sunnudag. Með því vísar Sólveig Anna til áforma stjórnvalda um að endurvekja svokallað Salek-samkomulag í formi Grænbókarvinnu í forsætisráðuneytinu. Grænbókarvinnan felur í sér að að sérstakt sérfræðingsráð ákvarði launahækkanir í landinu.

Í viðtalinu tekur Sólveig Anna fram að Grænbókarvinna hafi ekki verið hluti af kynningu stjórnvalda á framlagi þeirra til Lífskjarasamninganna vorið 2019. Engu að síður hafi þessi vinna verið tengd samningunum. „Ég fullyrði það að ef okkur hefði verið sagt þetta, ef ég hefði fengið þessi skilaboð, ég hefði farið með þau til minnar samninganefndar og þar hefði fólk hlegið þetta út af borðinu. En svo gerist það að þetta er þarna engu að síður,“ segir Sólveig Anna. „Og það er að mínu viti stórkostlega undarlegt.”

Sólveig Anna rifjar upp að Salek samkomulaginu hafi alfarið verið hafnað á þingi ASÍ árið 2016. Engin umræða hafi farið fram innan hreyfingarinnar um samkomulagið frá þeim tíma. Engu að síður hafi stjórnvöld beitt blekkingu til að ýta úr vör Grænbókarvinnu í anda Salek síðasta haust. Skipuð hafi verið nefnd í forsætisráðuneytinu um vinnuna með fulltrúum atvinnurekenda án nokkurs samráðs við launþegahreyfinguna. Nefndin sé leidd af Henný Hinz fyrrverandi aðalhagfræðing ASÍ og einum að hugmyndasmiðum Salek undir stjórn fyrrverandi formanns. Sólveig Anna hafnar alfarið Grænbókarvinnunni enda sé hún ólýðræðisleg og útiloki markvissa baráttu láglaunafólks fyrir launaleiðréttingu. „Þegar stjórnvöld sýna láglaunafólki ekki áhuga er enn mikilvægara en ella að vinnandi fólk geti beitt sér í gegnum verkalýðsfélögin til þess að knýja á um betri kjör,“ segir hún og minnir á að Efling hafi þurft að beita sér fyrir því að kjarsamningar héldu í haust. „Ef atvinnurekendur hefðu náð að hafa launahækkanir af láglaunafólki værum við á mun verri stað efnahagslega en við erum núna. Láglaunafólk notar allar sínar krónur í nærumhverfinu og skapar þannig strax eftirspurn eftir vörum og þjónustu.“

Þá minnti hún á að stéttskipting og ójöfnuður hefðu aukist verulega í faraldrinum. „Verka- og láglaunafólk hefur þurft að axla þessi byrði, sá hópur sem gat í raun ekki borið hana. Við verðum að spyrna fast gegn þessari þróun því að ef ójöfnuður eykst hömlulaust áfram býr sú þróun til stórkostleg félagsleg vandamál sem erfitt verður að ráða við,“ sagði hún meðal annars í þessu sambandi.