Efling – stéttarfélag hefur opnað nýjan þjónustuvef, Mínar síður, þar sem aðgengi að þjónustu félagsins er bætt til muna.
Í gegnum Mínar síður verður hægt að sækja um algengustu styrki úr sjóðum félagsins með alfarið rafrænum hætti. Mikil vinna hefur verið lögð í notendavæna upplifun, hvort sem er í gegnum tölvu eða snjallsíma, og verður allt efni frá upphafi aðgengilegt bæði á íslensku og ensku.
Í Mínum síðum verður hægt að sjá hve mikinn rétt til helstu styrkja félagsmenn eiga inni auk þess sem þeir geta séð yfirlit um iðgjöld sín til félagins og uppfært nauðsynlegar persónuupplýsingar með auðveldum hætti. Innskráning verður með rafrænum skilríkjum.
Þeir styrkir sem fyrst verður hægt að sækja um í gegnum Mínar síður eru líkamsræktarstyrkur, gleraugnastyrkur, sjúkraþjálfun/endurhæfing, viðtalsmeðferð og forvarnarstyrkur sem er nýr styrkur sem nær yfir nokkra eldri styrki.
Um er að ræða fyrsta áfanga í stærri innleiðingaráætlun þar sem smátt og smátt verður hægt að sækja rafrænt um alla styrki félagsins og jafnframt halda utan um önnur samskipti við félagið. Þróun á Mínum síðum mun halda áfram næstu mánuði og ár.
Ingibjörg Ólafsdóttir rekstrarstjóri Eflingar hefur átt veg og vanda af þróun verkefnisins. „Ég er mjög stolt af þessu stóra verkefni sem hefur gengið fullkomlega samkvæmt áætlun,‟ segir hún. „Það mun færa okkar félagsmönnum betri aðgang að dýrmætri þjónustu‟ sagði hún. „Þróun verkefnisins hefur krafist náins samstarfs milli ólíkra sviða á skrifstofu Eflingar þar sem fjölmargir starfsmenn og stjórnendur hafa komið að.‟
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar lýsir yfir ánægju með þennan mikilvæga áfanga. „Að gera þægilegan styrkumsóknarvef fyrir félagsmenn var eitt af áherslum mínum og B-listans sem sigraði í stjórnarkosningum í Eflingu vorið 2018. Ég og stjórn Eflingar höfum fengið að fylgjast náið með vinnunni við Mínar síður og stutt við hana við hvert tækifæri. Afraksturinn er nú þegar frábær og lofar góðu um framhaldið,‟ segir hún.