Fjölmennur félags- og trúnaðarráðsfundur Eflingar var haldinn í gærkvöldi, fimmtudagskvöldið 11. mars. Fundurinn var haldinn í gegnum fjarfundarbúnaðinn Zoom líkt og verið hefur á síðustu trúnaðarráðsfundum.
Meginefni fundarins var svokölluð Grænbók um vinnumarkaðsmál, verkefni sem ríkisstjórnin hefur sett á laggirnar og felur í sér tilraun til endurupptöku SALEK-hugmyndafræðinnar. Á fundinum flutti Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar erindi þar sem hún greindi frá vinnu stjórnvalda við verkefnið og þátttöku ASÍ í því, en verkefnið hefur hingað til farið leynt.
Sólveig Anna fór yfir sögu SALEK- samkomulagsins og aðdraganda Grænbókarvinnu. Gagnrýndi hún harðlega hvernig verkefnið hefur verið unnið af hálfu ríkisstjórnarinnar, sér í lagi að ríkisstjórnin hafi tengt verkefnið við Lífskjarasamningana. Sólveig Anna skýrði frá því að hvorki hún né samninganefnd Eflingar hafi á nokkrum tímapunkti verið upplýst eða veitt samþykki fyrir Grænbókarvinnu í samhengi við Lífskjarasamningana. Gagnrýndi hún jafnframt SALEK-hugmyndafræðina og stuðning fyrri forystu Alþýðusambandsins við hana. Þessar hugmyndir ganga út á miðstýrða skömmtun launahækkana á vegum sérfræðinganefnda og afnám sjálfstæðs samnings- og verkfallsréttar verkalýðsfélaga.
Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu, fjallaði jafnframt stuttlega um þýðingu SALEK-hugmyndafræðinnar fyrir launafólk í landinu og hvernig breytingar í þá veru myndu skerða verulega möguleika þeirra til að hafa áhrif á sín lífskjör.
Í umræðum í hópavinnu að loknu erindi formanns Eflingar kom fram algjör eining meðal félagsmanna um hafna alfarið svokallaðri Grænbókarvinnu. Það er óhætt að segja að hiti hafi verið í fundargestum og mikil óánægja með vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.
„Það er ekki eðlilegt hvernig ríkisstjórnin hefur reynt að fara bakdyraleiðir til að endurvekja SALEK-samkomulagið í formi svokallaðrar Grænbókar. Það er heldur ekki eðlilegt hvernig Grænbókarvinna hefur verið sett í samhengi við Lífskjarasamningana. Það er á hreinu að Efling hefur á engum tímapunkti gefið skuldbindingu um þátttöku í slíkri vinnu og Efling fékk enga kynningu á hugmyndum ríkisstjórnarinnar um þetta. Farið var á bakvið Eflingu þegar ákvæði um þetta var sett í loforðapakka ríkisstjórnarinnar í Lífskjarasamingnum og aðrir verða að skýra hvernig það gerðist,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Sjá einnig viðtal Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi við Sólveigu Önnu um efnið þann 15. mars 2021.