Select Page

Efling hefur stofnað nýjan skóla fyrir félagsfólk. Efnt var til nafnasamkeppni meðal félagsmanna um heiti á skólanum og bárust félaginu hvorki meira né minna 135 tillögur.

Vinningstillagan kom frá Dovile Paulauskaite og verður nafn skólans Vitinn – skóli Eflingar. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar afhenti á Dovile á dögunum verðlaunin, 50.000 kr. í húskynnum Eflingar að Guðrúnartúni 1.

Dómnefnd skipuðu Sólveig Anna Jónsdóttir formaður, Fríða Rós Valdimarsdóttir, teymisstjóri fræðslumála hjá Eflingu og Kontór auglýsingastofa.

Í umsögn dómnefndar segir: „Vitinn er táknrænn fyrir stöðugleika í ólgusjó, hann vísar veginn og er ljós í myrkrinu. Þá vísar heitið einnig til vits sem einmitt fæst með aukinni fræðslu.‟

Um er að ræða uppstokkun á núverandi fræðslufyrirkomulagi stéttarfélagsins auk nýrrar námsbrautar. Markmiðið er að færa fræðslu til félaga í nútímalegra horf, gera hana fjölbreyttari, markvissari og áhugaverðari en áður.

Með skólanum er mynduð eins konar regnhlíf yfir núverandi kennsluframboð Eflingar, þ.e. trúnaðarmannafræðslu, fræðslumorgnana Drop-Inn, virkninámskeið, starfslokanámskeið og önnur stök námskeið. Jafnframt verður boðið upp á svokallaða almenna braut þar sem Eflingarfélögum er veittur stuðningur, tæki og tól til að hafa aukin áhrif, beita sér í þágu verkalýðsbaráttunnar og samfélagsmála almennt. Kennsla hefst í haust.

Processing...
Thank you! Your subscription has been confirmed. You'll hear from us soon.
Barátta fyrir betra lífi.
Vertu áskrifandi að fréttaskeyti Eflingar. Fáðu ferskar fréttir af baráttunni og réttindum þínum í tölvupósti.
ErrorHere