Margfalt ofbeldi – reynsla erlendra kvenna

14. 04, 2021

Stígamót, ráðgjafarmiðstöð fyrir brotaþola kynferðisofbeldis, og verkalýðsfélagið Efling hafa tekið höndum saman í baráttunni gegn kynferðisofbeldi, með því að gefa út upplýsingabækling á tíu tungumálum um þjónustu Stígamóta og mikilvægi þess að leita sér hjálpar til að takast á við afleiðingar kynferðisofbeldis.Bæklingana má nálgast hér.

Margfalt ofbeldi – reynsla erlendra kvenna

Í #metoo sögum erlendra kvenna á Íslandi, kom skýrt fram að margar þeirra hafa reynslu af kynferðisofbeldi sem og kynferðislegri áreitni á vinnustað. Frásagnir þeirra endurspegla jafnframt hvernig staða þeirra í íslensku samfélagi og jaðarsetning getur gert reynslu þeirra af ofbeldi og afleiðingum þess flóknar og marglaga. Það getur meðal annars komið til vegna skerts aðgengis að upplýsingum og þjónustu.Stígamót, ráðgjafarmiðstöð fyrir brotaþola kynferðisofbeldis, og verkalýðsfélagið Efling hafa nú tekið höndum saman í baráttunni gegn kynferðisofbeldi, með því að gefa út upplýsingabækling á tíu tungumálum um þjónustu Stígamóta og mikilvægi þess að leita sér hjálpar til að takast á við afleiðingar kynferðisofbeldis.Hlutfall fólks af erlendum uppruna sem leitar aðstoðar á Stígamótum er yfirleitt í kringum 4% en það endurspeglar ekki fjölda innflytjenda á Íslandi sem er í kringum 15%. Gera má ráð fyrir að kynferðisofbeldi sé jafn algengt gagnvart konum af erlendum uppruna og jafnvel líkur á að það sé algengara ef tekið er tillit til þeirra fordóma og misréttis sem þær geta orðið fyrir. Eitt af megin markmiðum Stígamóta hefur alltaf verið að ná til fjölbreytts hóps brotaþola og það skiptir okkur því miklu máli að koma góðum og gagnlegum upplýsingum til erlends fólks á Íslandi svo það viti af þjónustunni sem er í boði.Efling er stærsta félag verkafólks á Íslandi og meira en helmingur félagsfólks er af erlendu bergi brotið. Því lætur Efling sig velferð aðflutts fólks í íslensku samfélagi miklu varða. Jafnframt er það afstaða okkar að verkalýðsfélög eiga að taka virkan þátt í að vinna gegn ofbeldi. Kynferðisofbeldi er ekki einkamál þolenda heldur samfélagslegt vandamál sem þarf að takast á við á kerfisbundinn hátt og með samvinnu allra sem geta lagt af mörkum. Það er grundvallaratriði í fjölþjóðlegu samfélagi að mikilvægar upplýsingar séu aðgengilegar öllu fólki, ekki síst upplýsingar er varða líf og heilsu.Í bæklingnum sem kemur út í dag er að finna mikilvægar upplýsingar og skilaboð fyrir brotaþola kynferðisofbeldis á tíu tungumálum. Tungumálin eru: Arabíska, enska, íslenska, lettneska, litháíska, pólska, rússneska, spænska, tælenska og víetnamska. Þar kemur meðal annars fram að þjónusta Stígamóta er ókeypis og að viðtöl eru í boði á íslensku og ensku, auk þess sem boðið er upp á túlkaþjónustu án endurgjalds sé þörf á.Við lítum á þetta sem mikilvægt skref til að koma betur til móts við konur, karla og kynsegin fólk af erlendum uppruna á Íslandi. Við hvetjum öll, einstaklinga, félög, stofnanir og fyrirtæki til að dreifa efninu og taka þannig virkan þátt í því að styðja brotaþola við að leita sér aðstoðar.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður EflingarSteinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona StígamótaGrein birt á visi.is 14.04.2021