Samið við RA um varðveislu Bókasafns Dagsbrúnar

Baráttuandi horfinna verkalýðsleiðtoga sveif yfir vötnunum þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar (RA), skrifuðu undir samning um varðveislu og þróun Bókasafns Dagsbrúnar síðasta dag aprílmánaðar.Bókasafn Dagsbrúnar var stofnað með veglegri bókagjöf Guðrúnar Pálsdóttur, ekkju Héðins Valdimarssonar fyrrverandi formanns Dagsbrúnar, á 50 ára afmæli stéttarfélagsins þann 26. janúar árið 1956. Upphaflegur bókakostur safnsins taldi 3.500 bækur úr eigu Héðins og foreldra hans, Valdimars Ásmundsonar ritstjóra og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur kvenréttindakonu. Nú geymir safnið hátt í 9.000 bækur, blöð og tímarit tengd verkalýðs- og stéttarbaráttu á Íslandi og á alþjóðavettvangi.Samningur Eflingar og ReykjavíkurAkademíunnar felur í sér áframhaldandi ábyrgð RA á varðveislu og daglegri starfsemi safnsins. Þá munu tveir fulltrúar Eflingar skipa fimm manna fagstjórn safnsins um áframhaldandi þróun og skipulag. Markmið starfseminnar er að bæta safnkost bókasafnsins og aðgengi, bæði almennings og fræðimanna að bókakostinum.Bókasafni Dagsbrúnar var nýlega komið fyrir í björtu rými á 1. hæð húsakynna RA við Þórunnartún 2. Þar er einnig boðið upp á vinnuaðstöðu fyrir áhugafólk og fræðimenn.