Stjórn Eflingar – stéttarfélags lýsir fullum stuðningi við baráttu Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) fyrir þeirri sjálfsögðu grundvallarkröfu að atvinnurekendur og heildarsamtök þeirra, Samtök atvinnulífsins, fari eftir kjarasamningum, lögum og dómum Félagsdóms.
Fram kemur í yfirlýsingu FÍA frá 15. október sl. að fyrirtækið Bláfugl ætli sér með stuðningi Samtaka atvinnulífsins að sniðganga niðurstöðu dóms Félagsdóms þar sem uppsagnir Bláfugls á félagsmönnum FÍA í miðjum kjaraviðræðum voru dæmdar ólöglegar.
Efling hefur barist gegn lögleysu á íslenskum vinnumarkaði, sem birtist í sívaxandi fjölda tilvika um launaþjófnað og önnur vinnumarkaðsbrot. Stjórn Eflingar mótmælir því að Samtök atvinnulífsins styðji nú einstök fyrirtæki með ráðum og dáð í slíkum brotum, og gangi jafnvel svo langt að sniðganga niðurstöður Félagsdóms.