Hópur stjórnenda og lykilstarfsmanna ráðinn til starfa

Stjórn Eflingar hefur samþykkt ráðningar hóps stjórnenda og lykilstarfsmanna sem hefja munu störf á skrifstofum Eflingar á næstu vikum.

Líkt og áður hefur verið greint frá tekur Perla Ösp Ásgeirsdóttir við starfi framkvæmdastjóra. Í hópi stjórnenda sem stjórn hefur nú samþykkt að ráða til starfa henni við hlið eru þeir Magnús Rínar Magnússon sviðsstjóri þjónustu, Ingólfur B. Jónsson sviðsstjóri vinnuréttinda og Viðar Þorsteinsson fræðslu- og félagsmálastjóri.

Einnig hefur verið gengið frá ráðningu Sveins Ingvasonar í stöðu forstöðumanns orlofshúsa, en Sveinn hefur um árabil verið yfirmaður orlofshúsamála Eflingar. Stefán Ólafsson hefur verið ráðinn sérfræðingur í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum og Ragnar Ólason tekur við starfi sérfræðings í kjarasamningsgerð.

Allir þessir einstaklingar fóru í gegnum viðtöl og hæfnismat hjá ráðningarstofu. Með þessum ráðningum hafa stjórnunarstöður allra helstu sviða starfseminnar á skrifstofu Eflingar verið mannaðar.

Lokafrágangur stendur nú yfir á ráðningum almennra starfsmanna en mikið af umsóknum barst í störf sem auglýst voru 16. apríl síðastliðinn.

„Ráðningar hafa gengið framar vonum. Rekstur skrifstofunnar er og verður í góðum höndum. Næsta skref er að ganga frá ráðningum almennra starfsmanna, og vonir standa til að því verði lokið innan skamms,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.