Stjórn Eflingar – stéttarfélags hefur samþykkt ráðningu Perlu Aspar Ásgeirsdóttur í starf framkvæmdastjóra. Perla á að baki 11 ára farsælan feril sem framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Landsbankanum. Þar áður starfaði hún sem greinandi hjá Seðlabankanum og gegndi samhliða störfum fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis sem rannsakaði orsakir fjármálahrunsins 2008. Perla lét af störfum hjá Landsbankanum í maí 2021.
Perla er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði og M.Sc. gráðu í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík.
Í starfi sínu sem framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Landsbankanum stýrði Perla teymi starfsmanna af svipaðri stærð og skrifstofa Eflingar. Perla leiddi og tók þátt í fjölmörgum umbreytinga- og stefnumótunarverkefni bæði innan áhættustýringar og fyrir bankann í heild. Gerð fjárhags- og viðskiptaáætlunar bankans var lykilþáttur í starfi Perlu í góðu samstarfi við önnur svið bankans.
Sem stjórnandi hefur Perla brennandi áhuga á umbótum, góðum stjórnarháttum og stefnumótun.
Perla hefur störf 1. júní næstkomandi og bíða hennar veigamikil og spennandi verkefni. Þar ber fyrst að nefna stefnumótun og eftirfylgni í tengslum við skipulagsbreytingar sem Efling hóf í apríl síðastliðnum.
„Ég lýsi mikilli ánægju með þessa ráðningu. Við leituðum að framkvæmdastjóra sem getur ábyrgst góða stjórnarhætti, leitt vandaða áætlunargerð um reksturinn og átt gott samstarf við stjórn og starfsmenn. Það er ljóst að Perla Ösp hefur afburða færni og reynslu í þessum atriðum,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
„Ég þakka það traust sem mér er sýnt gagnvart því mikilvæga verkefni að taka við skrifstofu Eflingar – stéttarfélags eftir róstursama tíma. Það eru mörg verðug verkefni sem bíða mín og þess teymis sem mun manna skrifstofuna. Ég treysti því að þekking mín og reynsla frá Landsbankanum muni styrkja Eflingu og hlakka til farsælla samskipta við stjórn og samstarfsfólk,“ sagði Perla Ösp.