Samkvæmt könnunum Gallup á fjárhag heimila hefur fjölgað ört þeim heimilum sem ekki ná endum saman á síðasta ári og jafnframt á síðustu mánuðum. Þannig hefur hlutfall heimila sem ekki ná endum saman þrefaldast frá byrjun árs 2021 til janúar-febrúar 2023, eða úr 6% í 18%. Þetta er mikil aukning á stuttum tíma.
Rýrnandi kaupmáttur frá því í apríl á síðasta ári, vegna aukinnar verðbólgu og mikilla hækkana stýrivaxta seðlabankans, er þannig að segja til sín. Umsamdar launahækkanir í desember síðastliðnum virðast ekki hafa dugað til að aftra versnandi fjárhag heimila á síðustu vikum. Þetta má sjá á mynd 1, með samanburði á stöðunni í apríl 2022 og í janúar-febrúar 2023.
Mynd 1: Hlutfall heimila sem ekki ná endum saman, árin 2021 til 2023. Heimild: Gallup.
Mynd 2: Fjárhagserfiðleikar: Öll heimili og nokkrir sérhópar 2023. Heimild: Gallup.
Á mynd 2 má sjá að fólk í lægri tekjuhópum og leigjendur finna mest fyrir erfiðleikum við að ná endum saman núna, en þau sem búa í eigin húsnæði standa á heildina litið betur. Ungt fjölskyldufólk kemur þó verr út en meðaltal allra fjölskyldna.
Það eru því tekjulægstu heimilin og leigjendur sem finna mest fyrir vaxandi þrengingum vegna verðbólgu og stöðunnar á húsnæðismarkaðinum, samkvæmt nýjustu könnun Gallup.