Vegna verkfallsaðgerða hjá bifreiðastjórum og í olíudreifingu sem hefjast á hádegi 15. febrúar starfrækir Efling – stéttarfélag undanþágunefnd. Nefndin hefur það mikilvæga verkefni að veita undanþágur frá verkfalli til að tryggja almannaöryggi.
Sækja þarf um undanþágur og tekur nefndin við öllum erindum þess efnis á netfangið undanthagunefnd@efling.is
Félaginu hefur þegar borist fjöldi undanþágubeiðna og hefur móttaka þeirra verið staðfest jafnóðum. Afgreiðsla undanþágubeiðna hefst í dag 14. febrúar og munu umsækjendum berast svör svo fljótt sem auðið er.
Félagið hefur þegar átt óformleg samtöl við fulltrúa lögreglu, slökkviliðs og Vegagerðinnar og bendir allt til góðs samstarfs við þessa aðila um veitingu og framkvæmd undanþága.
Undanþágunefnd er skipuð fulltrúum úr samninganefnd félagsins og er formaður hennar Sólveig Anna Jónsdóttir.