Samtök atvinnulífsins fyrir hönd olíufyrirtækjanna Skeljungs og Olíudreifingar hafa fallist á innleiðingu sérstakrar greiðslu vegna aksturs með hættuleg efni (ADR), með fyrirvara um samþykkt félagsmanna á miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem kynnt var í dag.
Greiðslan nemur 175 kr. á allar unnar vinnustundir og kemur til framkvæmdar frá og með 1. febrúar 2023. Greiðslan bætist við önnur umsamin ráðningarkjör og aðrar hækkanir sem kveðið er á um í miðlunartillögunni.
Innleiðing á ADR-greiðslu var meginkrafa olíubílstjóra í kjaradeilu Eflingar við SA. Sérgreiðslur vegna aksturs með hættuleg efni hafa verið baráttumál bílstjóra innan Eflingar áratugum saman.