Í viðtali við fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar gagnrýndi Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar harðlega hvernig vaxtastefna Seðlabankans, sem ætlað er að slá á eftirspurn í hagkerfinu, bitnar á þeim sem síst skyldi. Nær væri að skattleggja hátekjuhópa, en vaxtahækkanir virðast hafa lítil áhrif á þá samanborið við þunga byrði sem þessar hækkanir leggja á þá sem hafa minna milli handanna.
Sólveig Anna segir í viðtalinu: „Þetta leggst yfir alla en þetta hefur augljóslega lítil sem engin áhrif á það fólk sem hér er mjög vel statt en hefur skelfileg og eyðileggjandi áhrif á tilveruskilyrði þeirra sem með vinnu sinni knýja hér allt áfram en eru komin í þá stöðu að þau geta ekki séð fyrir sér og börnunum sínum og hafa ekkert um neitt annað að ræða heldur en að steypa sér út í skuldir til þess eins að komast af.“
Einnig bendir Sólveig Anna á að vinnubrögð síðustu kjarasamningalotu leiddu til útkomu þar sem litlar sem engar varnir voru gegn áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana. Hún segir: „Efling barðist fyrir allt öðruvísi uppbyggingu á samningum og við bentum á strax í upphafi kjarasamningslotunnar að það ætti að fara fram með þeim hætti að fólki yrði tryggð sín hlutdeild í hagvextinum og að það þyrfti að tryggja að fólk yrði einhvern veginn ekki grafið undir þessu verðbólgu- og vaxtahrauni sem hér er látið leka yfir allt frá Seðlabankanum.“
Frétt Vísis má lesa í heild sinni HÉR.