Viðburðurinn Matur og menning var haldinn í fyrsta skipti síðastliðinn sunnudag. Eflingarfélagar komu saman, sameinuðust í áhuga á matargerð og áttu góðan eftirmiðdag saman í Félagsheimili Eflingar. Fjölmennt var á viðburðinn og komust færri að en vildu.
Á viðburðinum buðu Eflingarfélagar upp á dýrindis mat frá sínum upprunalöndum, allt frá heitum kjötréttum yfir í súpur, meðlæti og eftirrétti. Eflingarfélagar frá hvorki meira né minna en 12 upprunalöndum tóku þátt og leyfðu viðburðargestum að smakka á ýmsum girnilegum og spennandi kræsingum.
Mikil ánægja var meðal viðstaddra með Mat og menningu, sem er nýjung í viðburðahaldi Eflingar, og er stefnt á að halda sams konar viðburð áður en langt um líður. Myndirnar tala sínu máli!