Breiðfylking stærstu stéttarfélaga og landssambanda á almennum vinnumarkaði gerir kröfu um að launahækkanir nýrra kjarasamninga muni gilda afturvirkt frá 1. janúar. Viðsemjandinn, Samtök atvinnulífsins (SA), vill hins vegar að þær gildi frá 1. febrúar. Breiðfylkingin vísaði í dag kjaradeilunni til ríkissáttasemjara, þar eð ljóst varð að SA féllist ekki á hófsama nálgun hennar.
Þetta kemur fram í nýju myndbandi þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fer yfir stöðu kjaraviðræðnanna og svarar jafnframt spurningum sem félagsfólk Eflingar hefur sent henni um samningaviðræðurnar. Myndbandið má sjá neðst í þessari frétt. Rétt er að geta þess að myndbandið var tekið upp og sent Eflingarfélögum áður en tekin var ákvörðun af hálfu Breiðfylkingarinnar um að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.
Meðal þess sem Sólveig Anna svarar í myndbandinu er spurning um afturvirkni launahækkana en eins og nefnt er hér að framan er ekki samkomulag um það hvenær þær eigi að taka gildi. Breiðfylkingin heldur hins vegar fast við að miða skuli við 1. janúar.
Spurt var hvort hár leigukostnaður væri undir í viðræðunum og svarar Sólveig Anna því til að meðal krafna breiðfylkingarinnar varðandi aðkomu stjórnvalda væri að húsaleigubætur verði hækkaðar og að komið yrði á leigubremsu.
Markmiðið að ná niður verðbólgu og auka kaupmátt
Í spurningu til Sólveigar Önnu um hvert markmiðið sé varðandi launahækkanir kemur fram sú afstaða hjá spyrjanda að hækkanirnar ættu ekki að vera lægri en í síðustu samningum, þar sem há verðbólga á samningstímanum hafi étið þær upp. Sólveig Anna svarar því til að breiðfylkingin leggi fram tillögur um hófsamar launahækkanir, en þær tillögur byggist hins vegar á því að stjórnvöld samþykki að endurreisa opinberu tilfærslukerfin, húsnæðis-, barnabóta- og vaxtabótakerfin. Hækka þurfi greiðslur úr öllum þessum kerfum og verði það gert færi það verkafólki á bilinu 30 til 50 þúsund krónur skattfrjálst á mánuði, auk launahækkana sem beri skatt. Með þessu sé markmiðið að ná verðbólgu niður og hækka kaupmátt.
Breiðfylkingin leggur áherslu á að við kjarasamningsgerðina verði skapaðar aðstæður sem valdi því að hratt dragi úr verðbólgu, að hún lækki um 4 prósent á ári frá upphafi samningstíma. Ef þau markmið náist ekki verði verkafólki bætt upp kaupmáttarrýrnun vegna verðbólgu með auknum launahækkunum. „Við teljum þessa nálgun áhrifaríkustu leiðina að þrýsta á fyrirtæki að hækka ekki verð,“ segir Sólveig Anna.
Kjarasamningar félagsfólks mismunandi stéttarfélaga verða ekki eins að öllu leyti. Þannig munu Efling og Starfsgreinasambandið gera svipaða samninga á meðan að VR, LÍV og Samiðn gera öðruvísi samninga. Hins vegar mun allt félagsfólk fá sömu launahækkanir.
Þá kemur skýrt fram í kröfugerð breiðfylkingarinnar að auka þurfi réttindi verkafólks á almennum markaði, meðal annars með betri uppsagnarvernd.
Sólveig Anna hvetur Eflingarfólk að síðustu til að halda áfram að senda sér tölvupóst með spurningum og þakkar áhugann sem félagsfólk sýnir kjaraviðræðunum. „Sameinuð höfum við góðan möguleika á að ná góðum samningi fyrir allt vinnandi fólk á Íslandi.“