Stefán Ólafsson skrifar.
Hugmynd breiðfylkingar ASÍ félaga um lækkun verðbólgu og vaxta er sú að allir leggi sitt af mörkum, í langtímasamningi (til þriggja eða fjögurra ára). Fyrirtækin lækki verðlag á nauðsynjum, bankar og lífeyrissjóðir lækki vexti á húsnæðislánum og opinberir aðilar stilli hækkunum gjaldskráa í hóf. Þá er farið framá að stjórnvöld efni loforðið sem þau gáfu við undirritun Lífskjarasamninganna 2019 um bremsu á hækkanir íbúðaleigu. Það vinnur líka gegn verðbólgu.
Til að ná þessu markmiði stigu verkalýðsfélögin fram og buðu óvenju hóflegar launahækkanir til að létta kostnaðarhækkunum af fyrirtækjunum og skapa meira rými til lækkunar álagningar. Í staðinn var leitað til ríkisvaldsins um að endurreisa tilfærslukerfi heimilanna sem hafa rýrnað verulega á síðustu árum og áratugum.
Kjarabæturnar skyldu þannig sóttar annað en fyrst og fremst í launahækkanir, þ.e. í eflingu tilfærslukerfa velferðarríkisins og í sjálfa lækkun verðbólgunnar og lækkun vaxta. Þetta er áætlunin sem farið var fram með og leitast við að raungera í samningaviðræðum við samtök atvinnurekenda (SA).
Atvinnurekendur vilja fá allt fyrir ekkert
Viðbrögð SA við hinum hóflegu launakröfum verkalýðshreyfingarinnar voru þau að draga launahækkanir enn meira niður, svo um munar. Verkalýðsfélögin hafa nú komið til móts við það, vegna eindregins vilja þeirra til að láta áætlunina ganga upp. En það eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að gefa eftir. Framlag fyrirtækjanna þarf að vera meira en innihaldslítið orðagjálfur.
Hugmynd verkalýðsfélaganna fól einnig í sér að sett yrðu viðmið um ásættanlega lækkun verðbólgu og vaxta á næstu árum (rauð strik, eins og voru notuð í þjóðarsáttarsamningunum 1990). Ef verðbólga yrðu yfir þessum markmiðum kæmi launauppbót til launafólks, hærri eftir því sem verðbólgan yrði lengra frá markmiðinu. Þetta væri ekki full verðtrygging launa, en þó nóg til að veita fyrirtækjunum hvata til að halda sig innan verðbólgumarkmiðsins. Þetta er bæði sanngjarnt og skynsamlegt að gera.
Ef verðbólga yrði yfir 7% á öðrum ársfjórðungi 2025, þ.e. hærri en hún er núna, þá yrði samningurinn uppsegjanlegur, enda þá ljóst að tilraunin hefði algjörlega mistekist. Miðað við nýjustu verðbólguspá seðlabankans og stöðuna í efnahagsmálum almennt eru hins vegar hverfandi líkur á að það reyni á þessi tryggingarákvæði.
Það eru stjórnendur fyrirtækja sem hækka verðlagið, ekki launafólk. Í fyrirtækjunum er viðvarandi freisting til að hækka verð umfram kostnaðarhækkanir til að auka hagnað (eins og gerðist 2021 til 2023 – sjá hér). Það er mun auðveldari leið heldur en að auka hagnað með framleiðniaukningu og hagræðingum. Þessar freistingar til of mikilla verðhækkana eru einmitt ein af ástæðum þess að Ísland er með hæsta verðlag í heimi, enda samkeppnisaðhald almennt lítið í íslensku atvinnulífi.
Vextir þurfa líka að lækka
Sams konar hugsun var uppi hjá breiðfylkingunni varðandi lækkun vaxta, þ.e. að setja fram talnalegt markmið og heimila endurskoðun eða uppsögn samninganna ef niðurstaðan yrði verulega undir væntingum. Þó var gert ráð fyrir að lækkun vaxta yrði ekki jafn hröð og lækkun verðbólgunnar.
Vaxtalækkanir þurfa bæði að ná til nafnvaxta og raunvaxta. Raunvextir húsnæðislána hafa lengi verið mun hærri hér á landi en í grannríkjunum. Í dag eru raunvextir verðtryggðra húsnæðislána nærri 4% en ættu almennt ekki að vera hærri en 2-2,5%. Í Danmörku eru þeir nú um eða undir 1%.
Samtök atvinnurekendur (SA) hafna alfarið forsendukröfum breiðfylkingarinnar um lækkun verðbólgu og vaxta, nema þá í svo útvötnuðu formi að engu skilar. Þau vilja ekkert virkt aðhald gagnvart verðlagningu fyrirtækja og ekki setja fram nein alvöru markmið um lækkun vaxta, með heimild til alvöru uppbóta eða uppsagnar samninganna ef niðurstaðan verður langt frá markmiðunum. Það kalla þau aðför að sjálfstæði seðlabankans, sem er rökleysa, enda hefur seðlabankinn áfram fullt frelsi til að ákveða vexti eins og honum sýnist.
Þjóðarsátt um aukinn hagnað fyrirtækja og banka?
Málið snýst um að launafólk hafi alvöru tryggingar um frekari launahækkanir og undankomuleiðir ef fyrirtækin, lánveitendur og aðrir skila ekki sínu í þetta verkefni sem átti að vera sameiginlegt átak. Án virkra slíkra trygginga er ekki hægt að gera langtímasamning. Þjóðarsáttarsamningarnir 1990 voru með alvöru tryggingarákvæði fyrir launafólk, mun öflugri en SA segjast sætta sig við núna.
Án slíkra trygginga breytist verkefnið í þjóðarsátt um að launafólk taki niður verðbólguna án þess að fyrirtækin og fjármálakerfið leggi neitt markvert af mörkum. Þetta verður þá „þjóðarsátt um hófsemd og ábyrgð launafólks og mikinn hagnað fyrirtækja og banka!“
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.
Greinin birtist fyrst á Heimildinni 12. febrúar 2024.