Forsenduákvæði vega á engan hátt að sjálfstæði Seðlabankans (Lögfræðiálit)

Ekkert stendur í vegi fyrir því að hægt sé að setja forsenduákvæði í kjarasamninga sem lúta að verðbólgu- eða vaxtastigi. Engin lög banna slík og samningsaðilum er ótvírætt heimilt að semja sín á milli um slík ákvæði. Slík forsenduákvæði binda á engan hátt hendur Seðlabanka Íslands né peningastefnunefndar hans og hafa engin áhrif á sjálfstæði bankans. 

Þetta er ótvíræð niðurstaða lögmannsstofunnar MAGNA lögmanna, sem að beiðni Eflingar hefur ritað álit á áhrifum forsenduákvæða í kjarasamningum á sjálfstæði Seðlabanka Íslands. Álitið er að finna hér að neðan.

Í kjarasamningaviðræðum nú hafa Samtök atvinnulífsins (SA) sett fram þá afstöðu að með forsenduákvæðum sem snúi að verðbólgu- og vaxtastigi kunni að vera vegið að lögbundnu sjálfstæði Seðlabanka Íslands. Af þeim sökum hefur SA ekki viljað fallast á þau forsenduákvæði sem Breiðfylkingin hefur krafist í kjarasamningunum. Um þau hefur áður verið fjallað á heimasíðu Eflingar og má sjá þá umfjöllun hér.

Sjálfstæði peningastefnunefndar tryggt

Í áliti Magna lögmanna segir að samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands sé hann sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins, sem heyri undir ráðherra. Bankinn lýtur þó hvorki yfirstjórn ráðherra né annarra stjórnvalda að lögum heldur er sjálfstæður í gjörðum sínum. Bankinn lýtur þá ekki eftirliti ráðherra heldur er það eftirlit í höndum bankaráðs sem kosið er af Alþingi. Það eftirlit snýr ekki að ákvörðunum bankans í einstökum málum.

Þá nýtur peningastefnunefnd bankans sem tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja varðandi fjármálastöðugleika, þar á meðal ákvarðanir um stýrivexti, einnig sjálfstæðis gagnvart yfirstjórn bankans. Samkvæmt lögum þurfa nefndarmenn að uppfylla ströng skilyrði um sjálfstæði og óhlutdrægni. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiðum um stöðugt verðlag og byggja á vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahagslífinu. Því er sjálfstæði og óhæði nefndarmanna í peningastefnunefnd tryggt með margvíslegum hætti í lögum, segir í álitinu. 

Hvað varðar kjarasamninga og reglur um þá, segir í álitinu að samningafrelsi sé ein af meginreglum samningaréttar. Af þeim sökum sé samningsaðilum frjálst að gera milli sín samninga og ráðstafa í þeim réttindum sínum og skyldum, svo lengi sem lög leyfa þær athafnir. 

Gerð kjarasamninga hefur engin réttaráhrif á Seðlabankann

Með hliðsjón af framangreindu meta Magna lögmenn þá afstöðu Samtaka atvinnulífsins að forsenduákvæði geti með einhverju móti vegið að sjálfstæði Seðlabankans. „Er fyrst til þess að líta að bankinn á ekki aðild að slíkum samningum og að aðilar hins almenna vinnumarkaðar fara ekki með vald til að skuldbinda bankann með gerð kjarasamninga sín á milli. Gerð slíkra samninga, óháð efni þeirra hverju sinni, getur því ekki haft í för með sér breytingu á réttarstöðu bankans,“ segir í álitinu. Þar segir enn fremur að kjarasamningar geti því með engu móti vegið að lögbundnu sjálfstæði bankans, né heldur að svigrúmi peningastefnunefndar hans til að taka ákvarðanir, þar á meðal um stýrivexti. 

„Ákvæði kjarasamnings sem vísa til ákvarðana Seðlabankans hafa því engin réttaráhrif með tilliti til lögbundins sjálfstæðis bankans og binda bankann ekki við ákvarðanatöku sína,“ segir enn fremur í álitinu. 

Löng hefð fyrir forsenduákvæðum sem snúa að verðbólgu

Eðli málsins samkvæmt geta samningsaðilar ekki samið sín á milli með bindandi hætti um verðbólgu- eða vaxtastig, til þess hafa þeir hvorki vald né er það viðfangsefni kjarasamninga. Hins vegar kemur ekkert í veg fyrir að hægt sé að miða ákvæði langtíma kjarasamnings við ytri aðstæður á borð við verðbólgu- eða vaxtastig. Um slíkt er samningsaðilum ótvírætt heimilt að semja sín á milli.

Í álitsgerðinni er þar fyrir utan bent á að löng hefð sé fyrir því við gerð kjarasamninga að binda efni þeirra að einhverju leyti við forsendur um verðbólgu- og vaxtastig. „Hafa slík forsenduákvæði undantekningarlaust verið í langtímasamningum stéttarfélaga innan ASÍ og SA undanfarin ár.“ Þá segir jafnframt að hefði löggjafinn talið slík ákvæði ósamrýmanleg við sjálfstæði Seðlabankans hlyti að hafa verið brugðist við því með lagasetningu. Engar vísbendingar er um slíkt að finna í lögum um Seðlabankann, né í lögskýringargögnum. 

Niðurstaða lögmannsstofunnar er því að ákvæði í almennum kjarasamningum sem bindi efni þeirra við tiltekið verðbólgu- eða vaxtastig sé í fullu samræmi við sjálfstæði Seðlabankans, lög um sjálfstæði bankans komi ekki í veg fyrir að slík ákvæði séu sett í samninga og þau dragi ekki úr sjálfstæði hans.