Þetta felst í forsenduákvæðum Breiðfylkingarinnar

Ekki er hægt að samþykkja að launafólk sé lokað inni í fjögurra ára kjarasamningi með mjög hófsömum launahækkunum án þess að skýr forsenduákvæði séu innbyggð í hann. Samþykki Breiðfylkingarinnar fyrir hófsömum launahækkunum stendur og fellur með  því að stýrivextir og verðbólga lækki hratt. Náist þau markmið ekki verða að vera innbyggðar forsendur í kjarasamningum til að gefa launafólki möguleika á að bæta það upp. 

Markmið Breiðfylkingarinnar við samningaborðið eru skýr og voru þau kynnt Samtökum atvinnulífsins (SA) strax þegar viðræður hófust af alvöru milli jóla og nýárs. Markmiðin eru að verðbólga lækki og að stýrivextir lækki og SA hafa margoft tekið opinberlega undir þau. Með þessi markmið á oddinum sætti Breiðfylkingin sig við að semja um hófstilltar launahækkanir.

Þann 6. febrúar náðu aðilar saman um meginlínur launahækkana á fjögurra ára samningstíma. Lágmarkshækkun yrði 23.750 krónur á hverju ári, og að önnur laun hækki um 3,25% fyrstu þrjú árin og 3,50% seinasta árið. Launahækkanir á fyrsta ári nema á bilinu 3,25 til 5,9%, mest hjá lægst launuðu hópunum.

Verðbólga í landinu samkvæmt síðustu mælingu Hagstofunnar er hins vegar 6,7% og því ljóst að þessar launahækkanir hafa í ekki við núverandi verðbólgu. Því er mjög mikilvægt að markmið um minnkandi verðbólgu og lækkandi stýrvexti gangi eftir. 

En það er ekki nóg að treysta bara, heldur þurfa að vera til staðar öryggisventlar sem tryggja launafólk fyrir því að sitja ekki eftir með lágar hækkanir í hárri verðbólgu og háum vöxtum. Þá þarf einnig að vera tryggt að stjórnvöld standi við þau fyrirheit sem þau munu gefa í tengslum við kjarasamninginn. 

Þær forsendur sem Breiðfylkingin setti fram eru eftirfarandi:

  • Að verðbólga verði komin niður í 4% í febrúar 2025. Hún er í dag 6,7%. Þetta er vel innan þeirra marka sem núverandi hagspá Seðlabankans gerir ráð fyrir.
  • Að stýrivextir Seðlabankans verði komnir niður í 6,75% í febrúar 2025. Þeir eru í dag 9,25%. Allar spár gera ráð fyrir að þetta gangi eftir.

Til að stuðla að því að þessi markmið náist hefur Breiðfylkingin gefið eftir varðandi launahækkanir, og hún hefur einnig fallist á kröfu SA um að hækkanir séu verði í formi blandaðra prósentu- og krónutöluhækkana. Algjört lágmark er að SA endurgjaldi þetta með því að fallast á forsenduákvæði í samningnum sem taka á verðbólgu og stýrivöxtum. 

Upphaflegt tilboð Breiðfylkingarinnar hljóðaði upp á eftirfarandi:

  • Ef verðbólga verður hærri en 4% 1. febrúar 2025 hækki laun strax.
  • Ef meginvextir verði hærri en 6,75% 1. febrúar 2025 verði kjarasamningur laus. 
  • Ef stjórnvöld standi ekki við gefin fyrirheit um sína aðkomu verði kjarasamningur laus. 

Breiðfylkingin lagði þá fram drög að breyttum forsenduákvæðum að nýju 6. febrúar síðastliðinn, til að koma til móts við SA. Þar var lagt til að samningsaðilar settu sér sameiginleg markmið um verðbólgu og vexti. Forsendur myndu virkjast ef þau markmið næðust ekki. 

Þær forsendur væru:

  • Stighækkandi krónutöluhækkanir launa ef markmið nást ekki. Samningur verði laus ef komið er langt út fyrir markmið og verðbólga verði 7 prósent eða meiri.
  • Heimilt verði að segja upp samningnum ef stýrivextir Seðlabankans hafi ekki lækkað um 2,5 prósentustig í lok maí 2025. 

Breiðfylkingin kom því til móts við SA með því að slaka á upphaflegum tillögum sínum er varða stýrivexti, þannig að tímaramminn sem unnið yrði með væri fjórum mánuðum lengri en upphaflega var gert ráð fyrir. Þá bauð Breiðfylkingin upp á að sameiginlega markmiðasetningu varðandi verðbólgu. Þessar forsendur eru algjörlega innan þeirra viðmiða sem allir greiningaraðilar gera ráð fyrir í spám sínum um hagþróun næstu ára, þar á meðal Seðlabankinn sjálfur.

Þessu svöruðu SA með  því að leggja fram eigin drög að forsenduákvæðum tveimur dögum síðar, 8. febrúar. Í þeim var voru engin  tölusett markmið og að það átti að setja í nefnd að leggja mat á hvort forsendur samningsins hefðu haldið. Þá vildu SA að báðir samningsaðilar þyrftu að samþykkja uppsögn kjarasamningsins.

Sjónarmið Breiðfylkingarinnar eru að til að hægt sé að gera kjarasamning til fjögurra ára þar sem launafólk sættir sig við mjög hóflegar launahækkanir verði að vera sterk forsenduákvæði. Ekki er hægt að loka launafólk inni í löngum samningum ef markmið um lækkandi verðbólgu og lækkandi vexti ganga ekki upp. 

Forsenduákvæðin þurfa að vera skýr og tölusett, og til staðar þarf að vera sjálfvirkt viðbragð við því ef þau ganga ekki upp. Sé staða mála víðs fjarri markmiðum verður að vera hægt að segja samningnum upp. 

Breiðfylkingin telur, rétt eins og allir helstu greiningaraðilar, að mjög ólíklegt sé að það muni reyna á forsenduákvæðin eins og þeim er stillt upp í tillögum Breiðfylkingarinnar. Réttast er að líta  á þau sem tryggingu til algjörra þrautavara. 

Samningsvilji SA hvað þetta varðar hefur reynst lítill. Af þeim sökum lýsti Breiðfylkingin samningaviðræðurnar árangurslausar síðastliðinn föstudag. Fallist SA á einföld og skýr forsenduákvæði á borð við þau sem Breiðfylkingin hefur lagt til ætti ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að gera kjarasamninga sem muni stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta, öllum til heilla.