Freyr Rögnvaldsson ráðinn upplýsingafulltrúi Eflingar

Freyr Rögnvaldsson hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi Eflingar stéttarfélags. Freyr er stjórnmálafræðingur að mennt, frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Lundi. Hann hefur síðustu 17 ár unnið sem blaðamaður á ýmsum fjölmiðlum, meðal annars Heimildinni, Stundinni, DV, Eyjunni, Bændablaðinu og á 24 stundum. Freyr hlaut Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands árið 2018 fyrir rannsóknarblaðamennsku þegar hann rannsakaði og greindi eignarhald auðmanna á íslenskum bújörðum. Hann hefur þá einnig í tvígang verið tilnefndur til verðlaunanna.

Sömuleiðis hefur Freyr sinnt kynningarstörfum og upplýsingagjöf á sínum starfsferli, meðal annars þegar hann starfaði hjá kynningardeild Bændasamtakanna. Þá var hann upplýsingafulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir Alþingiskosningarnar árið 2017.

Freyr er fullur tilhlökkunar yfir því að taka til starfa fyrir félagsfólk Eflingar og verkafólk á Íslandi.  „Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum í baráttu Eflingarfélaga fyrir bættum kjörum og aðbúnaði, sem og að koma því á framfæri hversu gríðarlega mikilvægt hlutverk  félagsfólks Eflingar er í íslensku samfélagi.“

„Ráðning Freys er liður í eflingu samskipta og miðlunar upplýsinga af félagslegu og faglegu starfi Eflingar stéttarfélags. Freyr mun með reynslu sinni reynast félaginu og starfsfólki mikilvægur liðsfélagi í því ferli,“ segir Perla Ösp Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að með ráðningu Freys verði enn frekar skerpt á upplýsingagjöf félagsins: „Efling er annað stærsta stéttarfélag landsins og lang stærsta félag verkafólks. Öflug upplýsingagjöf um grundvallarmikilvægi okkar er lykilatriði í baráttu félagsins fyrir efnahagslegu réttlæti.“ 

Freyr er giftur Snærós Sindradóttur, listfræðingi og fjölmiðlakonu, og eiga þau fjögur börn.