Efling gengur í bandalag norrænna stéttarfélaga 

John Nielsen formaður hefur hér orðið á stjórnarfundi SUN sem fór fram í Helsinki í apríl síðastliðnum. Viðar Þorsteinsson sat fundinn fyrir hönd Eflingar og kynnti meðal annars störf félagsins.

Efling stéttarfélag hefur hlotið aðild að bandalagi norrænna stéttarfélaga í þjónustugeiranum, SUN, og verður þar fullgilt aðildarfélag um næstu mánaðarmót. Aðildin mun nýtast félaginu afar vel við frekari uppbyggingu á félagslegu starfi, segir Viðar Þorsteinsson, fræðslu- og félagsmálastjóri Eflingar. 

Efling sótti um, og fékk, áheyrnaraðild að SUN í desember síðastliðnum og hefur Viðar setið fundi bandalagsins sem áheyrnarfulltrúi Eflingar síðan, m.a. fund sem haldinn var í Reykjavík þann 21. mars. Ákveðið var að áheyrnaraðildin yrði til hálfs árs og tekin yrði ákvörðun um framhaldið að því loknu.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi í byrjun þessa mánaðar erindi á formann SUN, John Nielsen, fyrir hönd stjórnar félagsins, þar sem sótt var um fulla aðild að bandalaginu. Í erindinu lýsti Sólveig Anna því að á síðustu sex mánuðum hefði Efling sannarlega sannfærst um kosti þess að halda samstarfinu áfram. Mjög gagnlegt hefði verið að skiptast á upplýsingum og deila reynslu með systursamtökum félagsins á Norðurlöndum á vettvangi SUN, og því hefði stjórn Eflingar ákveðið að sækja um fulla aðild. 

Í svarbréfi sínu til Eflingar, sem barst síðastliðinn föstudag, sagði John Nielsen formaður að stjórn SUN hefði „með mikilli ánægju“ samþykkt umsóknina. Bauð hann Eflingu hjartanlega velkomna í bandalagið en félagið fær formlega aðild að SUN 1. júlí næstkomandi. Efling mun þá taka að sér að halda stjórnarfund bandalagsins hér á landi í október næstkomandi. 

Viðar fagnar því mjög að Efling hafi nú verið samþykkt sem fullgildur aðili að SUN. „Það hefur verið mjög lærdómsríkt að kynnast störfum systurfélaga okkar innan SUN síðasta hálfa árið meðan Efling hafði áheyrnaraðild. Við höfum fengið mikið af gagnlegum upplýsingum frá þeim, til dæmis um kjarasamninga ræstingafólks í Danmörku og um aðferðirnar sem félögin nota til að afla virkra félagsmanna. Það er mjög ánægjulegt hvað þessi félög hafa tekið Eflingu opnum örmum og það mun svo sannarlega nýtast okkur við uppbyggingu á félagslegu starfi Eflingar.“

SUN var stofnsett árið 1945 sem bandalag norrænna stéttarfélaga innan þjónustugeirans. Meðal þeirra geira sem SUN nær yfir eru ræstingar og öryggisvarsla, en það eru hvort tveggja geirar þar sem fjöldi Eflingarfélaga starfar. Að bandalaginu standa stéttarfélög á öllum Norðurlöndunum, utan Grænlands, nú þegar að Efling hefur fengið inngöngu. Félagsmenn stéttarfélaganna sem að SUN standa eru vel á annað hundrað þúsund á Norðurlöndunum. 

Hlutverk SUN er að styrkja tengsl og samstöðu milli aðildarfélaganna, sem og að styðja við þau félög sem standa í verkfallsátökum ef þörf krefur. Þá er bandalagið vettvangur til að deila reynslu og upplýsingum um faglega starfsemi stéttarfélaganna á Norðurlöndunum. 

Frá fundi stjórnar geirahóps SUN í öryggisvörslu sem haldinn var í húsakynnum Eflingar þann 21. mars 2024.