Furðulegar yfirlýsingar Seðlabankafólks

Stefán Ólafsson skrifar:

Þeir sem átta sig á því að orsakir verðbólgu geta verið margvíslegar hafa undrast greiningar og yfirlýsingar Seðlabankans á ýmsum stigum verðbólgunnar frá 2021 og allt til síðustu daga. 

Seðlabankinn gengur almennt út frá því að verðbólgan orsakist einkum af of miklum eftirspurnarþrýstingi (of mikilli neyslu og fjárfestingum) og beitir vaxtahækkunum til að draga niður kaupmátt almennings, í þeirri von að úr eftirspurn dragi. Þetta bitnar einkum á tekjulægri og millihópum hópum samfélagsins. Hátekjufólk finnur almennt lítið fyrir vaxtabyrði og dregur því frekar lítið úr neyslu sinni. 

Hátt vaxtastig hefur hins vegar dregið úr fjárfestingum og hægt stórlega á hagvexti og nú blasir við stöðnun í efnahagslífinu (4% samdráttur þjóðarframleiðslu varð á fyrsta fjórðungi núverandi árs), en verðbólgan er samt þrálát. Bendir það ekki til þess að verið sé að nota röng meðul við sjúkdómnum?

Bankinn horfir framhjá því að mikilvægasta skýring núverandi verðbólgu er misvægi á húsnæðismarkaði – alltof lítið hefur verið byggt af nýjum íbúðum, m.a. vegna hárra vaxta Seðlabankans. Hár vaxtakostnaður skuldugra fyrirtækja þrýstir einnig á verðlag. Þannig er hið háa vaxtastig að hluta að orsaka það að verðbólgan er þrálát. Við því hefur Seðlabankinn brugðist á rangan hátt og horfur eru á að svo verði áfram. Það má ráða af nýjustu yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar bankans í vikunni og viðtölum við seðlabankastjóra í fjölmiðlum í kjölfarið.

Eftirfarandi eru nokkrar sérstaklega uggvekjandi yfirlýsingar frá Seðlabankanum:

  1. Fjármálastöðugleikanefnd segir nú: „Teikn eru á lofti um að tekið sé að hægja á efnahagslífinu samhliða hækkun raunvaxta.“ Þetta er vanmat (e. understatement) af stærstu gerð. Hagvöxtur var 8,9% 2022, 4,1% í fyrra og nú er hann kominn niður í -4% á fyrsta ársfjórðungi! Svona mögnuð umskipti í efnahagslífinu hreyfa ekki meira en svo við Seðlabankafólkinu að þau kalla þetta „teikn á lofti um að tekið sé að hægja á efnahagslífinu…“. Bankastjórinn segist vilja sjá frekari kólnun efnahagslífsins í sumar en þetta er þegar orðin kólnun eins og í versta norðan hreti!
  2. Fjármálastöðugleikanefnd segir nú: „Hækkun raunvaxta hefur þrengt að ráðstöfunartekjum heimila og rekstrarumhverfi fyrirtækja. Útlit er fyrir að þessara áhrifa gæti enn frekar á næstu misserum.“ Fyrri setningin er vissulega rétt en sú seinni bendir til að bankinn ætli engu að breyta á næstu misserum. Sömu röngu meðulunum verður áfram beitt og heimili og fyrirtæki skulu bera byrðarnar áfram.
  3. Í viðtali 5. júní sagði seðlabankastjóri að flestar atvinnugreinar séu nú í samdrætti, nema helst byggingariðnaðurinn. Svo bætti hann við að það gæti verið „hættulegt fyrir byggingariðnaðinn að fara þannig framúr öðrum greinum“! En það er einmitt það sem mest vantar, að byggingariðnaðurinn byggi fleiri íbúðir til að draga úr skortinum á húsnæðismarkaði, sem heldur verðbólgunni uppi með of miklum hækkunum íbúðaverðs. Þessi ummæli benda til nokkurrar veruleikafirringar í bankanum.
  4. Í viðtali sama dag sagði seðlabankastjóri einnig að launahækkanir í nýgerðum kjarasamningum séu að hækka verðbólguna úr 6% í 6,2%. Verkalýðshreyfingin samdi um 4% hækkun launakostnaðar á yfirstandandi ári, í rúmlega 6% verðbólgu. Samið var semsagt um kaupmáttarrýrnun en samt leyfir bankastjórinn sér að fullyrða að kjarasamningar séu að hækka verðbólguna nú. 

Viðmið kjarasamninganna voru í takti við fyrri boðskap bankans um launahækkanir sem samræmast 2,5% verðbólgu. Það er því enginn fótur fyrir því að svo hóflegar launahækkanir séu að halda uppi verðbólgunni núna. Þessi yfirlýsing seðlabankastjóra kemur því sem blauta tuska í andlit verkalýðshreyfingarinnar. Af þessu þarf að draga alvörugefnar ályktanir.

Ég hef áður fært rök fyrir því að brýnt sé að taka með öðrum hætti á verðbólgunni og að ríkisstjórnin þurfi að grípa til úrræða sem beinast að raunverulegum rótum verðbólgunnar (sjá t.d.  hér og hér). Úrræði Seðlabankans eru ekki að virka nógu vel og valda raunar umtalsverðu tjóni í efnahagslífinu og rekstri heimila lægri og milli tekjuhópa.

Nýjustu skilaboð úr Seðlabankanum vekja þannig litla von um umbætur í meðferðarúrræðum verðbólgunnar og þar með er lítil von um batnandi tíð á næstu misserum. 

Ríkisstjórnin þarf að taka til hendinni með beinum afgerandi inngripum, einkum á húsnæðismarkaði, en einnig með neysluhamlandi aðgerðum sem virka á þá tekjuhærri og eignameiri. Þeir hópar eru líklegastir til að halda uppi of miklum eftirspurnarþrýstingi, en ekki skulduga láglaunafólkið sem finnur mest fyrir vaxtahækkunum Seðlabankans.

Stefán Ólafsson er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu.

Greinin var fyrst birt á Heimildinni 8. júní 2024.