Efling stéttarfélag óskar félagskonum sínum og öllum konum á landinu til hamingju með kvenréttindadaginn. Á þessum baráttudegi er þess minnst og því fagnað að fyrir 109 árum, 19. júní 1915, fengu konur á Íslandi kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
Það voru þó ekki allar konur, heldur aðeins þær sem voru 40 ára og eldri. Aldursmörkin skyldu svo lækka um eitt ár á hverju ári næstu fimmtán árin. Íslenskar konur þurftu þó ekki að bíða svo lengi. Með nýrri stjórnarskrá árið 1920 komst á jafnræði með konum og körlum, og fengu þá öll kosningarétt við 25 ára aldur.
Þó vissulega hafi ýmislegt áunnist frá þessum tíma, og á síðari árum, er staðan enn þó sú að langt er í land með að jafnrétti sé náð á Íslandi, og ekki síst á íslenskum vinnumarkaði.
Samkvæmt niðurstöðum úr könnun Vörðu-Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins frá því á síðasta ári búa Eflingarkonur við hvað erfiðasta stöðu á íslenskum vinnumarkaði.
Um tveir þriðju hlutar Eflingarkvenna eita erfitt með að ná endum saman, ríflega helmingur þeirra getur ekki mætt óvæntum útgjöldum að upphæð 80 þúsund krónur og yfir helmingur þeirra býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði. Helmingur Eflingarkvenna býr við slæma andlega heilsu og yfir helmingur þeirra sýna merki kulnunar.
Eflingarkonur, og verkakonur allar á Íslandi, eru ómissandi. Án þeirra stoppar þjóðfélagið. Þær halda hjúkrunarheimilum og dvalarheimilum gangandi. Án þeirra þyrfti að loka leikskólum. Verkakonur standa undir raunverlulegri verðmætasköpun í íslensku þjóðfélagi. Það eru þær sem vinna fiskinn, sem þrífa hótelherbergin. Þær bera uppi samfélagið.
Það er skilyrðislaus krafa að þegar í stað verði ráðist í að bæta kjör verkakvenna. Þær eiga skilið mannsæmandi laun án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvernig þær eigi að þrauka fram að næstu mánaðarmótum, án þess að hafa sting í maganum af áhyggjum yfir því að þurfa að fara til tannlæknis eða kaupa nýja skó til að standa á dagana langa í vinnunni. Þetta má ekki lengur dragast.
Höldum þeim kröfum hátt á lofti á þessumbaráttudegi.
Gleðilegan kvenréttindadag.