Efling greiddi tæpar 650 milljónir í styrki til félagsfólks á síðasta ári

11. 07, 2024

Á síðasta ári fengu tæplega 7 þúsund Eflingarfélagar greidda styrki af ýmsu tagi, alls að upphæð 218 milljónir króna. Er það 12 prósenta aukning frá fyrra ári. Líkamsræktarstyrkur var eftirsóttastur og þar á eftir styrkir vegna viðtalsmeðferða. Hægt er að kynna sér hvaða styrkir standa Eflingarfélögum til boða á heimasíðu félagsins, sjá hér

Þá voru árið 2023 greiddir tæplega 6 þúsund fræðslustyrkir til 4.649 félagsmanna. Styrkirnir sem um ræðir eru úr Starfsafli, Flóamennt og starfsmenntasjóðum Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga. Útgreiddum styrkjum fjölgaði um 13 prósent milli ára og sóttu 12 prósent fleiri félagar um styrki á síðasta ári, borið saman við árið 2022. Greiddar voru út 424 milljónir króna í starfsmenntastyrki, sem er hækkum um fjórðung frá árinu 2022. 

Aukning í sjúkradagpeningagreiðslum

Alls fengu 1.388 Eflingarfélagar greidda sjúkradagpeninga á síðasta ári, 2023. Fjöldi þeirra sem fengu sjúkradagpeninga greidda jókst um 6 prósent milli ára en greiðslurnar hækkuðu hins vegar um ríflega 36 prósent. Alls greiddi sjúkrasjóður Eflingar út tæplega 1,6 milljarða króna á síðasta ári. 

Hlutfall félagsfólks sem hefur fengið greidda sjúkradagpeninga hefur hækkað verulega síðustu fimm ár. Árið 2019 var hlutfallið 3,7 prósent en á síðasta ári 6,2 prósent. Aukningin dreifist jafnt milli kynja en ójafnt eftir aldrushópum. Mest er aukningin í aldurshópi þeirra sem eru 60 ára og eldri, alls 38 prósent aukning. 

Þá hefur lengd tímabils sem félagsfólk er á sjúkradagpeningum aukist töluvert, um 8 prósent milli ára.