Meðal starfsævi Íslendinga er sú lang lengsta í Evrópu. Íslendingar mega búast við að vera að meðaltali tæpum níu árum lengur á vinnumarkaði heldur en íbúar í Evrópusambandsríkjunum.
Meðal starfsævi Íslendinga var í fyrra 45,7 ár miðað við gögn Eurostat, tölfræðistofnunar Evrópusambandsins. Það er heilum tveimur árum lengri starfsævi heldur en hjá Hollendingum, sem eru í öðru sæti.
Almennt er starfsævi Norður-Evrópubúa lengri en Suður-Evrópubúa. Þannig er starfsævin sú þriðja lengsta í Svíþjóð og öll Norðurlöndin eru meðal þeirra tíu ríkja í Evrópu þar sem starfsævin er lengst.
Starfsævi Íslendinga hefur styst eilítið síðasta áratuginn. Árið 2014 var meðal starfsævi Íslendinga þannig 46,2 ár, hálfu ári lengri en hún var í fyrra. Á sama tíma hefur meðal starfsævi íbúa Evrópusambandsins lengst um rúm tvö ár. Engu að síður vinna Íslendingar enn, sem fyrr segir, miklu mun lengur en Evrópubúar aðrir að meðaltali, 8,8 ár í heildina.
Karlar á Íslandi vinna töluvert lengur en konur, fjórum árum lengur í það heila. Meðal starfsævi karla er 47,6 ár en kvenna 43,6 ár.