Verðhækkanir og háir vextir leiddu til þess að launahækkanir skiluðu heimilunum í landinu ekki kaupmáttaraukningu á síðasta ári. Þvert á móti dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna saman í fyrra.
Þetta er meðal þess sem má lesa út úr vorskýrsla kjaratölfræðinefndar 2024 sem kom út í síðustu viku. Í skýrslunni kemur fram að samdráttur í kaupmætti á síðasta ári hafi þó verið óverulegur frá árinu 2022.
Í skýrslunni er meðal annars fjallað um launaþróun í því sem nefnt er nýliðin kjaralota, það er að segja tímabilið frá nóvember 2022 til janúar 2024, auk annara þátt er snúa að kjarasamningum, vinnumarkaði og efnahagsmálum. Á því tímabili hækkuðu grunnlaun á vinnumarkaði að jafnaði um 11,1 prósent. Á sama tíma hækkaði almennt verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs um 8,3 prósent. Því hækkaði kaupmáttur grunntímakaups um 2,6 prósent í kjarasamningslotunni. Kaupmáttur grunntímakaups jókst mest hjá þeim sem starfa hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg, um 3,1 prósent. Hann hækkað um 2,7 prósent á almenna markaðnum en um á bilinu 1,9 til 2 prósent hjá ríkinu og Reykjavíkurborg.
Frekari umfjöllun um vorskýrslu kjaratölfræðinefndar má finna hér á vef ASÍ.