Kjarasamningur Eflingar og Reykjavíkurborgar samþykktur 

Frá undirritun samninganna.

Félagsfólk Eflingar stéttarfélags samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta nýjan kjarasamning milli félagsins og Reykjavíkurborgar. Atkvæðagreiðslu um samninginn lauk klukkan 10:00 í morgun, föstudaginn 5. júlí. 

Alls samþykktu 88 prósent þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samninginn. Aðeins 9 prósent voru honum andvíg en 3 prósent tóku ekki afstöðu í kosningunni. Kjörsókn var 19 prósent. 

Samningaviðræður samninganefnda Eflingar og Reykjavíkurborgar höfðu staðið frá því um miðjan apríl, án verulegs árangurs. Því vísaði Efling deilunni til ríkissáttasemjara 27. maí. Þá komst skriður á samningaviðræðurnar og var kjarasamningur undirritaður 20. júní síðastliðinn. Hann hefur nú, sem fyrr segir, verið samþykktur í atkvæðagreiðslu. 

Samninganefnd Eflingar var ánægð með þann árangur sem náðist við samningaborðið og svo virðist sem yfirgnæfandi fjöldi Eflingarfélaga sem vinna hjá borginni hafi verið sammála því mati. Alls vinna 2.329 Eflingarfélagar hjá Reykjavíkurborg. 

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. apríl síðastliðnum og til 31. mars 2028. Eflingarfélagar sem starfa hjá borginni eru hvattir til að kynna sér samninginn og fygljast með því við næstu útgreiðslu launa að allar greiðslur séu réttar.