Meðal ævilengd verkafólks hefur styst

29. 07, 2024

Meðal ævilengd verkafólks á Íslandi hefur á síðustu árum styst á sama tíma og meðal ævilengd háskólamenntaðra hefur lengst. Þetta er breyting frá því sem var lengst af á síðustu öld þegar ævilengd fólks var almennt að lengjast. Skýringin kann að vera fólgin í breyttri samsetningu verkafólks þegar kemur að uppruna þess. Meðal ævilengd allra karla og kvenna á Íslandi, óháð menntun, lækkaði milli áranna 2022 og 2023.

Stefán Ólafsson, prófessor emerítus og sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi, bendir á þessar breytingar og styðst við nýjar tölur um meðal ævilengd eftir menntun sem Hagstofan birti á dögunum. Þó flokkunin sé sem fyrr segir eftir menntun, þá er menntun nálgun við flokkun fólks í starfsstéttir. 

Í tölunum kemur fram að háskólamenntaðir karlar lifa um fimm árum lengur en karlar með grunnskólamenntun, en síðarnefndi hópurinn er oftast í verkamannastörfum. Meðal ævilengd verkakarla á síðasta ári var 78,8 ár. Sé meðal ævilengd verkakarla borin saman við meðal ævilengd háskólamenntaðra kvenna kemur í ljós að þær síðarnefndu lifa um átta árum lengur að meðaltali. 

Meðal ævilengd grunnskólamenntaðra kvenna, verkakvenna, hækkaði milli áranna 2022 og 2023 en hafði hins vegar lækkað skarpt milli áranna 2021 og 2022 áður. Meðal ævilengd verkakvenna á síðasta ári var lítillega lægri en árið 2021, 82,6 ár. Það er 3,8 árum styttri meðal ævilengd en hjá kynsystrum þeirra sem eru háskólamenntaðar og 2,7 árum styttra en hjá konum með framhaldsskólamenntun. Meðal ævilengd háskólamenntaðra karla er þá 1,2 árum lengri en verkakvenna.

Sé horft á þróun síðasta áratugar má sjá að meðal ævilengd verkakvenna hefur styst um 0,6 ár frá árinu 2014. Meðal ævilengd verkakarla hefur á sama tíma staðið í stað. Hins vegar hefur meðal ævilengd allra annarra hópa aukist, mest hjá háskólamenntuðum konum, um 1,1 ár. Meðal ævilengd háskólmenntaðra karla var á síðasta ári 0,9 árum hærri en árið 2014 og meðal ævilengd bæði karla og kvenna með framahaldsskólamenntun var 0,5 árum lengri en fyrir áratug. 

Stefán segir að á síðustu öld hafi ævilengd fólks almennt verið að lengjast en nú hafi ævilengd verkafólks á síðustu árum verið að styttast. „Það eru mikil umskipti til hins verra,“ skrifar Stefáns. Hann telur að skýringanna sé ekki síst að leita í því breyttri samsetningu í hópi verkafólks á Íslandi. Fjölgun verkafólks af erlendum uppruna sem búið hafi við lakari lífskjör og verra viðurværi í uppvexti heldur en innfæddir Íslendingar hafi áhrif á lækkandi meðal ævilengd, og þeirra áhrifa muni væntanlega gæta í meira mæli á komandi árum.