Yfir helmingur erlends fólks á vinnumarkaði of hæft í störf sín

Mynd: Þórdís Erla Ágústsdóttir

Yfir helmingur vinnandi fólks af erlendum uppruna á Íslandi er í störfum sem það er of hæft fyrir, miðað við menntun þess. Á það bæði við um fólk sem hingað er komið frá Evrópusambandsríkjum og frá þriðju ríkjum. Hlutfallið er hvað hæst á Íslandi af öllum ríkjum Evrópu. 

Þetta má lesa úr tölum Eurostat, tölfræðistofnunar Evrópusambandsins. Af vinnandi fólki á Íslandi sem kemur frá ESB-ríkjum er hlutfallið 53,2% og er hið lang hæsta í ríkjum Evrópu. Næst hæst er hlutfallið á Ítalíu, 45,1% og síðan á Kýpur þar sem hlutfallið er 43,1%. Að meðaltali í ESB-ríkjunum er þetta hlutfall um 31%. Þess ber þó að geta að ekki eru til staðar gögn frá talsverðum hluta ESB-ríkjanna. Gögnum er ekki fyrir að fara frá þrettán ESB-ríkjum, auk Bretlands, hvað þetta varðar og eru það einkum eða því sem næst eingöngu Austur-Evrópuríki. 

Sé horft til kynjaskiptingar sést að rétt tæp 60% karla eru of hæfir fyrir störf sín en rétt tæpur helmingur kvenna er það hér á landi. Sambærileg hlutföll að meðaltali í ESB eru tæp 30% karla og tæp 33% kvenna. 

Af starfandi fólki á Íslandi sem koma frá ríkjum utan Evrópusambandsins var hlutfallið 53,6%. Aðeins á Grikklandi (60,2%) og Ítalíu (57,3%) var hlutfallið hærra á síðasta ári. Meðaltalið í ESB-ríkjunum var 36,1% á síðasta ári. Ekki er að hafa gögn varðandi málefnið frá þremur ESB-ríkjum auk Bretlands. 

Sé aftur horft á muninn á kynjunum í þessu samhengi kemur í ljós að talsvert hærra hlutfall karla heldur en kvenna sem koma frá þriðja ríki teljast hæfir fyrir þau störf sem þeir sinna á Íslandi eða tæp 59%. Sambærilegt hlutfall kvenna er um 50%. Þessu er hins vegar öfugt farið ef horft er á meðaltal ESB-ríkjanna, þar sem of hæfar konur frá þriðja ríki eru 38,5% en hlutfall karla er 33,6%.

Á sama tíma er Ísland meðal þeirra landa þar sem hlutfall ríkisborgara sem eru of hæfir í þau störf sem þeir sinna er hvað lægst, 11,8%. Það er á pari við Danmörku og aðeins í Luxembúrg er hlutfallið lægra, 4,3%. Meðaltals hlutfallið í ESB var 20,8% á síðasta ári. Hvað varðar kynjahlutfallið er það með þeim hætti að fleiri íslenskir karlar teljast of hæfir fyrir þau störf sem þeir sinna heldur en konur, rúm 14% á móti 10% kvenna. Að meðaltali er hlutfallið í ESB-ríkjunum rétt um 20 prósent og eilítið fleiri konur teljast of hæfar fyrir þau störf sem þær sinna.