Atvinnuleysi helmingi minna á Íslandi en í ESB

Mynd: Þórdís Erla Ágústsdóttir

Atvinnuleysi á Íslandi í júní var um helmingi minna en atvinnuleysi í Evrópusambandsríkjunum og ríflega helmingi minna en á evru-svæðinu. Atvinnuleysi fór minnkandi á Íslandi milli mánaða öfugt við það sem gerðist ytra. 

Skráð atvinnuleysi hér á landi var 3,1% í júní síðastliðnum, en hvorki Vinnumálastofnun né Hagstofan hafa enn birt tölur um atvinnuleysi í júlímánuði. Atvinnuleysi lækkaði úr 3,4% í maí, að því er kemur fram hjá Vinnumálastofnun, en var þó hærra en í júní 2023 þegar það mældist 2,9%. 

Að meðaltali voru 6.722 atvinnulausir í júní síðastliðnum. Fleiri karlar en konur voru án vinnu, 3.784 karlar en 2.938 konur. Mest var atvinnuleysi á Suðurnesjum, 5,3% og hafði lækkað um 0,4 prósentustig frá því í maí. Minnst var atvinnuleysi á Norðurlandi vestra, 1%. 

Árstíðaleiðrétt meðaltals atvinnuleysi í Evrópusambandsríkjunum  í júní mældist samkvæmt Eurostat, tölfræðiskrifstofu Evrópusambandsins, 6%, og atvinnuleysi á evru-svæðinu mældist 6,5%. Það þýðir að um það bil 13,25 milljónir fólks hafi verið án atvinnu innan Evrópusambandsríkjanna, nokkru fleiri en í maí mánuði og sömuleiðis fleiri en á sama tíma fyrir ári síðan. 

Verst var staðan á Spáni þar sem var 11,5% atvinnuleysi í júní, og í Grikklandi þar sem atvinnuleysi mældist 9,6%. Lægst mældist atvinnuleysi í Tékklandi, 2,7%, og í Póllandi, 3%.

Sé litið til næstu nágrannaríkja Íslands, Norðurlandanna, þá var atvinnuleysi þar talsvert meira en á Íslandi. Lægst mældist atvinnuleysi í Noregi í júní mánuði, 4,1%. Atvinnuleysi í Danmörku var 5,9% og 8,3% í bæði Svíþjóð og Finnlandi.