Bandaríski listamaðurinn, baráttumaðurinn og aðgerðasinninn CJ Meike hefur gefið Eflingu stéttarfélagi glæsilegt listaverk sem hann vonast til að minni á mikilvægi alþjóðlegrar samstöðu vinnandi fólks.
Á síðasta stjórnarfundi Eflingar, sem haldinn var 22. ágúst, afhenti Sæþór Benjamín Randalsson stjórnarmaður félaginu gjöf fyrir hönd listamannsins. Gjöfin er glæsilegt mósaíkverk sem CJ Meike gerði og sendi til Íslands frá heimkynnum sínum í Bandaríkjunum. Verkið sýnir nafn og fána Eflingar.
Sæþór Benjamín bar þau skilaboð frá listamanninum að hann óskaði eftir því að verkið yrði hengt upp þar sem Eflingarfélagar gætu séð það, og mun Efling að sjálfsögðu verða við því. Meike vonast eftir því að verkið færi Eflingarfélögum gleði og minni á mikilvægi alþjóðlegrar samstöðu.
CJ Meike hefur fylgst með baráttu Eflingar um all nokkuð skeið og hrifist af. Hann er sem fyrr segir ekki bara listamaður, heldur einnig aðgerðarsinni en hann er kennari að atvinnu. Hann er búsettur í Richmond í Virginíu í Bandaríkjunum. Sæþór Benjamín er einmitt ættaður frá Virginíu og kynntust þeir í spjallhóp á netinu þar sem fjallað er um málefni vinnandi fólks og baráttuna fyrir efnahagslegu réttlæti í heiminum.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tók við listaverkinu fyrir hönd félagsins. Efling sendir hlýjar þakkarkveðjur til CK Meike fyrir gjöfina.